Löggæsla og eftirlit úr lofti

Þyrlur og flugvél LHG annast eftirlit og löggæslu á grunn- og djúpslóð

Þyrlur og flugvél Landhelgisgæslunnar gegna mikilvægu hlutverki við löggæslu og eftirlit, bæði á grunnslóð og djúpslóð. Fjareftirlit í gegnum AIS-kerfið er lykilþáttur í öryggismálum sjómanna og mengunareftirlit með gervihnöttum hefur færst í vöxt á undanförnum árum. Þá annast Landhelgisgæslan loftrýmiseftirlit í samræmi við skuldbindingar Íslands við NATO.

  • YD9A0949

 

Loftför Landhelgisgæslunnar gegna lykilhlutverki við almenna löggæslu og eftirlit á hafinu í kringum Ísland. Þyrlurnar nýtast einkum við löggæslu og eftirlit á grunnslóð og er farið í slík gæsluflug með reglulegu millibili. Flugvélin TF-SIF getur aftur á móti sinnt löggæslu og eftirliti um alla efnahagslögsöguna, ekki síst vegna þess háþróaða eftirlitsbúnaði sem hún býr yfir, til dæmis ratsjám og hitamyndavélum. Þannig fylgist flugvélin yfirleitt vel með úthafskarfaveiðum erlendra fiskiskipa á Reykjaneshrygg, rétt við íslensku lögsögumörkin, á hverju einasta vori. 

Almenn löggæsla úr lofti á vegum Landhelgisgæslunnar felst fyrst og fremst í því að hafa eftirlit með farartækjum á sjó. Fyrst og fremst er fylgst með því hvort skipin eru haffær og hvort þau hafa nauðsynlegan öryggisbúnað, hvort stjórnendur þeirra hafa tilskilin réttindi, hvort brotið er gegn lögum um fiskveiðar, fiskveiðistjórnun og nytjastofna sjávar. Einnig er verið að fylgjast með mengun, farartálmum á sjó sem valdið geta sjófarendum tjóni og hvort vitar og önnur siglingamerki eru í lagi. Við þetta bætist ýmislegt annað til dæmis eftirlit samkvæmt tollalögum og lögum um siglingavernd, svo sem hvort farartæki á sjó eru notuð í ólögmætum tilgangi. 

3_1513610286535Mynd: M. Scharenborg/R. Wenink

Landamæragæslu samkvæmt skuldbindingum Íslands gagnvart Schengen-samstarfinu er meðal annars sinnt með loftförum Landhelgisgæslunnar. Flugvélin TF-SIF hefur líka sinnt landamæraeftirliti fyrir Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópusambandsins (Frontex) við Miðjarðarhaf og víðar á undanförnum árum, meðal annars til að bregðast við þeim fjölda flótta- og farandfólks sem leggur á sig hættulegt ferðalag yfir hafið til að komast til Evrópu. 

Á undanförnum árum hafa svo gervihnettir og önnur fjarskiptatækni gegnt sífellt stærra hlutverki við löggæslu og eftirlit á Íslandsmiðum. AIS-kerfið (Automatic Identification System) er eitt helsta öryggistæki sjófarenda en með því eru skip og bátar stöðugt í sjálfvirkri ferilvöktun. Kerfið nýtist líka til fiskveiðieftirlits, til dæmis til að sjá hvort skip séu að veiðum á lokuðum svæðum. Vonir standa til að á næstu misserum verði búið að koma á vöktun lögsögunnar með AIS í gegnum gervitungl. 

Siglingaöryggisstofnun Evrópusambandsins (EMSA) lætur Landhelgisgæslunni í té fjölda gervihnattamynda í hverjum mánuði sem meðal annars gagnast mjög vel við mengunareftirlit. Þannig sér stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um móttöku gervitunglamynda frá EMSA samkvæmt samning við Umhverfisstofnun. Þessi þjónusta, sem nefnist CleanSeaNet sýnir mögulega mengunarflekki á hafi ásamt skipagreiningu. Þjónustan gefur þannig möguleika á að finna og fylgja eftir mengun á hafi, vakta bráðamengun á meðan af henni stafar ógn og hjálpar til við að bera kennsl á það sem veldur menguninni. Til að greina hvaðan mengunin kemur er í kerfinu hægt að samkeyra myndirnar með sjálfvirku auðkennikerfi skipa. Þegar mögulegir olíuflekkir eru greindir á gervitunglamyndum fer nánari rannsókn í gang og ef um raunverulega mengun er að ræða tilkynnir Landhelgisgæslan atvikið til Umhverfisstofnunar.

Loks sinnir Landhelgisgæslan loftrýmiseftirliti í samræmi við skuldbindingar Íslands gagnvart NATO. Fjórar ratsjár- og fjarskiptastöðvar eru reknar hér á landi vegna íslenska loftvarnakerfisins. Framkvæmd loftrýmiseftirlits og loftrýmisgæslu fer fram í stjórnstöð NATO á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Verkefnið er hluti af samþættu verkefni NATO, „NATO intergrated air defence system - NATINADS“ og er það unnið af starfsmönnum Landhelgisgæslu Íslands. Kerfisbundið loftrýmiseftirlit hefur meðal annars að markmiði að bera kennsl á og fylgjast með ferðum hvers kyns loftfara.