Landhelgisgæslan fær afhentan byltingarkenndan strandgæslubát smíðaðan af Rafnar ehf
Landhelgisgæslan fékk í dag afhentan 10 metra strandgæslubát sem smíðaður er af fyrirtækinu Rafnar ehf. Georg Kristinn Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar veitti hinum nýja bát viðtöku sem afhentur var af eiganda Rafnar ehf, Össuri Kristinssyni.
Um er að ræða byltingarkennda bátasmíði sem byggir á nýrri hönnun á þessari tegund báta. Báturinn, sem hlotið hefur nafnið Óðinn, hefur mikla þýðingu fyrir Landhelgisgæsluna og eykur möguleika hennar á að sinna fjölbreyttum verkefnum sínum.
Þróun bátsins hefur staðið yfir frá árinu 2011 í samvinnu við Landhelgisgæsluna en báturinn er sérsmíðaður og sérstaklega hannaður eftir þörfum Landhelgisgæslunnar. Frumútgáfur bátsins hafa verið í prófunum síðastliðin þrjú ár við margvíslegar aðstæður og hefur báturinn reynst afar vel.
Með tilkomu Óðins í flota Landhelgisgæslunnar aukast möguleikar hennar á að sinna fjölmörgum verkefnum og staðbundnu eftirliti á hagkvæmari og fljótlegri hátt en á stærri skipum. Báturinn eykur meðal annars stórlega möguleika Landhelgisgæslunnar til öryggis- og löggæslu á grunnslóð. Þá eru kostir bátsins miklir þegar kemur að æfingum með þyrluáhöfnum Landhelgisgæslunnar sem og varðskipum og öðrum björgunareiningum í landinu. Báturinn mun einnig nýtast sem aðgerðabátur sprengju- og séraðgerðasveitar Landhelgisgæslunnar sem og í margvísleg löggæslu- og eftirlitsverkefni og önnur sérverkefni. Bátur af þessari stærðargráðu er hagkvæm eining bæði til eftirlits og þjálfunar og gerir Landhelgisgæslunni kleift að skipuleggja betur nýtingu báta og varðskipa og bregðast við aðstoðarbeiðnum á grunnslóð með skjótari hætti.
|
Össur Kristinsson eigandi Rafnar ehf afhendir forstjóra Landhelgisgæslunnar "lyklavöldin" að Óðni |
|
Fulltrúar fjölmiðla gera sig klára í prufusiglingu |
|
Þeir Gæslumenn, Jónas Karl Þorvaldsson og Ásgeir Guðjónsson tilbúnir í siglingu |
|
Haldið af stað |
|
Óðinn sem er 10 metra langur hentar afar vel til verkefna á grunnslóð og stóreykur möguleika Landhelgisgæslunnar í þeim efnum |
|
Maðurinn á bakvið fyrirtækið Rafnar ehf, Össur Kristinsson |