Sprengjusérfræðingar LHG eyddu tundurdufli sem kom upp með veiðarfærum
Mánudagur 20. október 2014
Landhelgisgæslunni barst nýverið tilkynning um torkennilegan hlut sem kom upp með veiðarfærum um borð í Jón á Hofi sem var á veiðum í Jökuldýpi vestur af landinu.
Upplýsingunum var komið til vakthafandi sprengjusérfræðings sem hafði sambandi við skipstjóra og var staðfest að um breskt tundurdufl með 225 kg sprengjuhleðslu var að ræða. Skipstjóra var ráðlagt að halda að innsiglingunni við Sandgerði og flutti Hannes Hafstein, björgunarskip Landsbjargar í Sandgerði, sprengjusérfræðinga ásamt kafara frá Landhelgisgæslunni um borð og var duflið gert öruggt til flutnings. Eftir að lyftibelgjum hafði verið komið fyrir á duflinu var því slakað í sjóinn og síðan dregið á öruggan stað til eyðingar með aðstoð slöngubáts frá köfunarþjónustu Sigurðar frá Sandgerði. Kafari Landhelgisgæslunnar kom svo fyrir sprengjuhleðslu við duflið þar sem því var eytt.
Meðfylgjandi myndskeið sýnir þegar að sprengjuhleðslunni úr duflinu var eytt. Smellið hér.