TF-SIF á heimleið
Þriðjudagur 20. desember 2011
Verkefnum TF-SIF, flugvélar Landhelgisgæslunnar árið 2011 er nú lokið fyrir Frontex, landamærastofnun Evrópusambandsins. Flugvélin er nú á heimleið frá Ítalíu og er gert ráð fyrir að hún lendi á Reykjavíkurflugvelli á morgun miðvikudag.
TF-SIF hefur síðastliðna tvo mánuði gert út frá Brindisi og verið við eftirlit á Miðjarðarhafi og Eyjahafi. Á tímabilinu hefur áhöfn flugvélarinnar fundið báta og fleytur með alls 267 flóttamönnum sem síðan var komið til bjargar og aðstoðar með varðskipum og björgunarbátum á svæðinu.
Landhelgisgæslan tók á árinu þátt í verkefnum Frontex með varðskipinu Ægi samfleytt frá júní-október en flugvélinni TF-SIF, með hléum frá sama tíma. Varðskipið Ægir tók þátt í fjöldamörgum björgunaraðgerðum þar sem samtals 495 flóttamönnum var bjargað um borð og fluttir til hafnar með varðskipinu Ægi eða öðrum björgunarskipum á svæðinu, þar af voru 272 í alvarlegum lífsháska.
Megintilgangur með eftirliti Frontex er landamæragæsla en verkefnin þróast oft á tíðum yfir í að verða björgunaraðgerðir. Á sjó stafar það m.a. af því að fólkið er á illa útbúnum fleytum sem ekki eru ætlaðar til lengri siglinga. Þeim sem skipuleggja smyglið stendur í flestum tilfellum á sama um örlög flóttafólksins eftir að þeir hafa fengið fargjaldið greitt.
Hluti af áhöfn TF-SIF
Í upplýsingum frá Frontex kemur fram að Alþjóðasiglingamálastofnunin (á ensku: IMO sem stendur fyrir International Maritime Organization) tekur árlega saman upplýsingar um björgunaraðgerðir á hafinu en þar segir að á árinu 2010 hafi tæki á vegum Frontex bjargað 98 % af öllum þeim sem bjargað var á sjó í heiminum. Samkvæmt því má segja að mannúðarstarf sé viðamikill þáttur í starfsemi Frontex.
Mynd TF-SIF og Ægir: Guðmundur St. Valdimarsson.