Frontex - Landamærastofnun EU óskar eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar
Föstudagur 4. mars 2011
Starfsmönnum Landhelgisgæslunnar barst í dag bréf frá Georg Kr. Lárussyni forstjóra varðandi fyrirspurn Frontex-Landamærastofnunar EU. Bréfið er svohljóðandi.
Í gær bárust okkur óskir frá Frontex – Landamærastofnun EU sem Ísland er aðili að í gegnum Schengen þess efnis hvort við gætum komið fyrr en áætlað var til starfa suður í löndum. Eins og flestir starfsmenn vita var búið að óska eftir að við yrðum með skip og flugvél í verkefnum fyrir Frontex á Lesvos, við Spán og í Senegal seinnipart sumars og í haust en þó í mun minna mæli en á síðasta ári.
Vegna þessa sérstaka ástands sem skapast hefur við Miðjarðarhafið er nú óskað eftir því að við komum sem fyrst með skip og flugvél. Þar ræður ekki síst hve mikil ánægja var með frammistöðu okkar á síðasta ári auk mikillar reynslu okkar og getu tækja til leitar og björgunar. Verði af þessu verður áður fyrirhuguðum verkefnum við Spán, Grikkland og Vestur-Afríku frestað og þess í stað munum við sinna verkefnum á Miðjarðarhafinu öllu allt frá Gíbraltar að Kýpur.
Ástæður þessa eru öllum kunnar. Þetta er mikil áskorun og eins og árar í vissum skilningi happafengur og því hefur verið ákveðið að kanna hvort mögulegt er að ná samkomulagi um að verða við þessari beiðni sem lýtur að eftirlits- og mannúðarverkefnum tengdum flóttafólki frá hrjáðum löndum. Ef svo fer er stefnt að því að Ægir haldi úr höfn strax í næstu viku . Ekki er ljóst hvenær og hvort unnt verði að senda flugvél en unnið er að því. Helstu stjórnendur á sjó og í lofti hafa nú í gær og í dag setið yfir þessum málum. Niðurstaðan er að reynt verði að taka þátt eins mikið og kostur er með skipi, flugvél og fulltrúum í stjórnstöðvum sem líklega verða í Róm og Aþenu. Með þessu er mögulegt að halda óbreyttum starfsmannafjölda og ráða viðbótarfólk bæði til flugs- og skipaútgerðar hið minnsta tímabundið.
Heiðursvörður áhafnar Ægis fyrir heimsókn í Almería á Spáni.
Líklegt er að samningar náist um að varðskipið Týr taki að sér verkefni fyrir Fiskveiðieftirlitsstofnun EU (CFCA) sem munu hefjast um mánaðamótin apríl/maí og standa meira og minna út árið. Eftirlitssvæðið verður til að byrja með á Miðjarðarhafi og seinni parts sumar á Norður-Atlantshafi. Skipið verður líklegast með heimahöfn í Valette á Möltu.
Eins og þið öll vitið höfum við verið í verkefnum í útlöndum af margvíslegum ástæðum en fyrst og fremst til að lifa af á þessum erfiðu tímum. Ljóst er að árið 2012 verður okkur erfitt fjárhagslega. Við höfum þó fullan metnað til að taka við nýju skipi og ætlum okkur með þessu framtaki okkar erlendis að gera allt sem unnt er til að koma því í rekstur hér heima og fá þriðju þyrluna inn í flotann. Þessi verkefni eru okkur nauðsynleg og forsenda þess að viðhalda mannauð og tækjum Landhelgisgæslunnar og starfsemi okkar í heild sinni.
Nú er að duga eða drepast.
Vegna erfiðra aðstæðna hér heima hefur reksturinn undanfarin misseri miðast við að skipuleggja starfsemina til skamms tíma eins og þið hafið orðið vör við en með þessum verkefnum, aukningu í mannskap og viðhaldi á tækjum og búnaði ætlum við að horfa lengra fram í tímann og skapa grundvöll að stöðugri rekstri.