Varðstjórar LHG sitja námskeið hjá Isavia

Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar,  ásamt framkvæmdastjóra aðgerðasviðs sátu í gær námskeið hjá Isavia í notkun upplýsingakerfis sem notað er við flugumferðarstjórn (Integrated Situation Display System (ISDS))  sem sýnir staðsetningu ratsjárstöðva og drægi þeirra . Einnig var kynnt notkun ratsjárstöðva við flugumferðarstjórn.

Nýverið tók Landhelgisgæslan við ábyrgð vegna leitar og björgunar loftfara af Isavia og er nú stjórnstöð Landhelgisgæslunnar skilgreind sem Björgunarstjórnstöð sjófarenda og loftfara (Joint Rescue Coordination Centre, JRCC).  Í framhaldinu var settur upp skjár með upplýsingum ISDS í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar sem mun eflaust nýtast vel í framtíðinni þegar kemur að viðbúnaði vegna loftfara. Verður þá með einföldum hætti hægt að bera saman upplýsingar úr ratsjárkerfum og ferilvöktunarkerfum skipa. Þegar virkjað er viðbúnaðarstig vegna loftfara eru skip á flugleiðinni ætíð beðin um að vera til taks ef flugvél lendir í hafinu, flýtir skjár ISDS fyrir þeirri gagnaöflun.

IsavianamskeidIMG_2948

Með reglugerðinni ber Landhelgisgæslan ábyrgð á og stjórnar leit og björgun vegna loftfara sem óttast er um, lenda í flugslysum eða er saknað, einnig ber  Landhelgisgæslan ábyrgð á vettvangsstjórn ef slysstaður er á hafinu. JRCC er sameiginleg eining MRCC og ARCC og ábyrg fyrir skilvirkri skipulagningu leitar- og björgunarþjónustu fyrir sjófarendur og loftför, einnig samhæfingu framkvæmdar leitar- og björgunaraðgerða innan leitar- og björgunarsvæðis. Sjá nánar reglugerð.