Þróun eldsumbrota á Fimmvörðuhálsi kortlögð. Styður við rannsóknir vísindamanna
Mánudagur 22. mars 2010
TF-SIF eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar flaug yfir gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi í dag þar sem aðstæður á svæðinu voru bornar saman við fyrri mælingar eftirlits- og leitarratsjár flugvélarinnar. Mjög slæmt veður var á gossvæðinu, en þó var hægt að ná þokkalegum myndum, bæði á radar og myndavél. Gufustróka leggur upp frá svæðinu þar sem hraun er farið að renna til NA fram af fjallabrúnum í átt að Þórsmörk.
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra kemur úr fluginu ásamt
Georg Kr. Lárussyni forstjóra Landhelgisgæslunnar.
Með í för voru vísindamenn en einnig Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins sem og Guðmundur Guðmundsson upplýsingafulltrúi, Hrannar Björn Arnarsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra, Þórunn Hafstein, ráðuneytisstjóri í dómsmálaráðuneytinu auk Kjartans Þorkelssonar sýslumannsins á Hvolsvelli.
Að sögn vísindamanna hefur tækjabúnaður vélarinnar haft gífurlega mikið að segja til að greina umfang og eðli eldsumbrotanna. Með búnaðnum er búið að kortleggja svæðið vandlega og hægt er að sjá tafarlaust þær breytingar sem verða á gosstöðvunum og svæðinu í kring.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í flugi TF-Sifjar í dag. Þær sýna að hraun er farið að renna til NA fram af fjallabrúnum í átt að Þórsmörk. Í 7000 fetum sást enginn strókur upp úr skýjum, en þó voru að koma smá bólstrar upp úr skýjahulunni vestan við svæðið.
Kl. 1443 rofaði aðeins til og náðist þá þessi mynd af gossvæðinu. Tekin úr austri.
Kl.1422, hitamynd tekin gegnum skýjahuluna sýnir hraunstreymi. Kl. 1436 sást sást gufubólstur sem náði hæst um 12000 fet.
Kl. 1436 sást sást gufubólstur sem náði hæst um 12000 fet.
Kl.1438, hraun streymir til norðurs frá gosinu.
Kl. 1748 sést útbreiðsla hraunsins (gul ör) á ratsjá, SPOTSAR. Rauð ör sýnir hvar hraunið vellur fram af fjallsbrún. Sjá stærri.