TF-SIF, ný flugvél Landhelgisgæslu Íslands kemur til landsins í dag; boðar byltingu í eftirlits-, öryggis- og björgunarmálum Íslendinga
Ný eftirlits- og björgunarflugvél Landhelgisgæslu Íslands, TF-SIF lendir á Reykjavíkurflugvelli í dag, miðvikudaginn 1. júlí kl. 15:00, á afmælisdegi Landhelgisgæslunnar.
Þann 5. mars 2005 samþykkti ríkisstjórn Íslands smíði á nýrri eftirlits- og björgunarflugvél fyrir Landhelgisgæslu Íslands í stað TF-SYN, Fokker vélar Landhelgisgæslunnar sem þjónað hefur Landhelgisgæslunni dyggilega í rúm 32 ár en er komin til ára sinna bæði hvað varðar tæknibúnað og getu.
Nánari upplýsingar um flugvélina má nálgast hér
TF-SIF
TF-SIF var formlega afhent Landhelgisgæslunni hjá Field Aviation í Kanada síðastliðinn föstudag. Sendiherra Íslands í Kanada, frú Sigríður Anna Þórðardóttir klippti á borðann ásamt Georg Kr. Lárussyni forstjóra Landhelgisgæslunnar sem veitti vélinni formlega viðtöku. Flugvélin er af gerðinni Dash-8 Q300 og eru flugvélar sömu tegundar notaðar hjá strandgæslum, eftirlits- og björgunaraðilum víða um heim við góðan orðstír.
Afhending TF-Sifjar í Kanada sl. föstudag. Sendiherra Íslands í Kanada, frú Sigríður Anna Þórðardóttir klippti á borðann ásamt Georg Kr. Lárussyni forstjóra Landhelgisgæslunnar
TF-SIF markar tímamót í allri starfsemi Landhelgisgæslunnar og er einfaldlega um að ræða byltingu í eftirlits-, öryggis- og björgunarmálum Íslendinga á því víðfeðma hafsvæði sem Ísland ber ábyrgð á jafn innan sem utan efnahagslögsögunnar. Vélin kemur til landsins á 83 ára afmæli Landhelgisgæslunnar en Landhelgisgæslan var stofnuð þann 1. júlí 1926. Hlutverk Landhelgisgæslunnar er að fara með yfirstjórn öryggis- og löggæslu, eftirlits-, leitar og björgunar á hafinu umhverfis Ísland ásamt því að aðstoða við björgun og sjúkraflutninga á landi auk ýmissa annarra verkefna. Verkefni Landhelgisgæslunnar hafa vaxið jafnt og þétt og ekki síst í ljósi breyttrar heimsmyndar, mikilvægi auðlindagæslu og nýrra ógna á hafinu. Þá er hlutverk Landhelgisgæslunnar í erlendu samstarfi sífellt mikilvægara.
Fjöldi starfsmanna og velunnara Landhelgisgæslunnar voru við komu TF-Sifjar
Smíðasamningur var undirritaður í maí 2007 og var samningsverð 32,2 milljónir dollara. Hafa allar áætlanir um bæði tíma og verð staðist að öllu leyti, er reyndar svo að flugvélin er nokkuð á undan áætlun. Við undirbúning útboðs, hönnun og smíði vélarinnar sem og þjálfun áhafna hefur Landhelgisgæslan notið ómældrar aðstoðar sænsku strandgæslunnar sem hefur á að skipa þremur samskonar vélum sem reynst hafa vel en gæði og afkastageta búnaðar í vélunum er einstaklega mikil. Samstarfið við sænsku strandgæsluna hefur reynst Landhelgisgæslunni dýrmætt og bæði sparað umtalsverðar fjárhæðir og vinnu. Flugvélin er smíðuð hjá Bombardier í Kanada en ísetning tæknibúnaðar fór fram hjá Field Aviation í Kanada. Hefur ferlið allt gengið ákaflega vel en þarna er um að ræða eina fullkomnustu eftirlits- og björgunarflugvél þessarar tegundar í heiminum.
Þyrlur Landhelgisgæslunnar TF-LÍF og TF-GNA fylgdu TF-SIF í tignarlegu lágflugi yfir Reykjavíkurflugvöll
Vélin var afhent Landhelgisgæslunni til prófana í byrjun júní og hafa flugmenn Landhelgisgæslunnar verið við þjálfun í Kanada og hjá sænsku strandgæslunni. Flugvirkjar hafa verið í þjálfun hjá SAAB, sem annast viðhald á flugvélum sænsku strandgæslunnar. Mikil breyting verður á öllu tæknilegu vinnuumhverfi flugáhafna Landhelgisgæslunnar en búnaður vélarinnar er eins og gefur að skilja mun þróaðri en búnaður í TF-SYN sem hefur verið í þjónustu Landhelgisgæslunnar frá árinu 1977.
TF-SIF kemur að skýli Landhelgisgæslunnar
Notkunarmöguleikar flugvélarinnar til öryggis- og löggæslu, eftirlits, leitar og björgunar sem og sjúkraflugs eru nánast ótakmarkaðir. Skapar vélin okkur Íslendingum kost á að fylgjast með hafinu umhverfis Ísland með allt öðrum og nákvæmari hætti en verið hefur. Meðal annars býr vélin yfir öflugri infrarauðri myndavél sem bæði getur tekið myndir frá hlið og beint fram, jafnt að nóttu sem degi. Með þessari tækni er hægt að hafa yfirsýn yfir umferð og aðgerðir á hafinu sem og greina athafnir skipa með ótrúlegri nákvæmni. Einnig er vélin búin mjög öflugum 360 gráðu radar sem getur greint skip í allt að 200 sjómílna fjarlægð og tegund þeirra í 40 sjómílna fjarlægð. Þá býr vélin yfir búnaði sem greinir mengun með nýjum og nákvæmari hætti en áður sem þýðir gjörbreytingu í auðlindagæslu og umhverfisvernd.
Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra ásamt Benóný Ásgrímssyni flugstjóra, Hafsteini Heiðarssyni, flugstjóra, Auðunni F. Kristinssyni yfirstýrimanni, Friðriki Höskuldssyni, stýrimanni, Höskuldi Ólafssyni, tæknistjóra, Georg Kr. Lárussyni, forstjóra Landhelgisgæslunnar og framkvæmdastjóra Field Aviation sem annaðist ísetningu tækjabúnaðar í TF-SIF.
Með tilkomu TF-SIF verður umbylting í möguleikum Landhelgisgæslunnar í leit á sjó og á landi þar sem tæknibúnaður vélarinnar nemur umhverfið með hætti sem ekki hefur áður verið til staðar hér á landi. Á sviði almannavarna skapast með vélinni nýir möguleikar við að greina breytingar á landslagi svo sem hæðarlínur í jöklum, eldfjöllum og snjóalögum. Þetta hefur mikið að segja vegna fyrirbyggjandi aðgerða og rannsókna á sviði almannavarna. Þá opnast með vélinni nýir möguleikar hvað varðar sjúkraflug á Íslandi og milli landa.
Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra flytur ávarp
Síðast en ekki síst margfaldast með hinni nýju vél, möguleikar Landhelgisgæslunnar á stórauknu samstarfi við nágrannaríki okkar um eftirlit, leit, björgun og auðlindagæslu á hinu verðmæta hafsvæði við Norður-Atlantshaf. Miklu skiptir að skapa aukna möguleika Landhelgisgæslunnar í samstarfi strandgæslna og sjóherja á Norður-Atlantshafi við að tryggja öryggi á svæðinu, hafa eftirlit með fiskveiðum og sporna gegn skipulagðri glæpastarfsemi sem spár gera ráð fyrir að muni aukast á næstu árum, ekki síst með tilliti til opnunar siglingaleiða á Norður-Íshafi. Verður hin nýja eftirlits- og björgunarflugvél mikilvægur hlekkur í þessu samstarfi þar sem Landhelgisgæslan spilar sífellt viðameira hlutverk.
Upplýsingar um flugvélina má sjá í meðfylgjandi kynningarefni, sjá hér
Sr. Hjálmar Árnason, dómkirkjuprestur blessaði TF-SIF og færði Landhelgisgæslunni biblíur til að hafa í flugförum Landhelgisgæslunnar.