Loftrýmisgæsluverkefni bandaríska flughersins senn að ljúka

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar, bandaríski flugherinn og aðrir þeir sem komið hafa að loftrýmisgæsluverkefni NATO hér á landi síðastliðnar vikur, komu saman í gær til að kveðja Bandaríkjamennina sem ljúka munu verkefninu í lok vikunnar. Halda þeir þá héðan til Eistlands í loftrýmisgæsluverkefni fyrir Atlantshafsbandalagið.

Forstjóri Landhelgisgæslunnar, Georg Kristinn Lárusson þakkaði flughernum og öllum þeim aðilum hér á landi sem að verkefninu hafa komið fyrir samstarfið síðastliðnar vikur en afar ánægjulegt er að hluti þeirra Bandaríkjamanna sem nú sinntu loftrýmisgæsluverkefninu hafa verið hér áður og þekkja orðið vel til aðstæðna. Yfirmaður bandarísku flugsveitarinnar, Lt. Col. Jeffrey Beckel þakkaði Landhelgisgæslunni og öðrum samstarfsaðilum fyrir hönd flugsveitarinnar og Óskar Þórmundsson fyrir hönd utanríkisráðuneytisins. Voru aðilar sammála um að verkefnið hefði gengið vel í alla staði.

Meðfylgjandi eru myndir sem starfsmenn Landhelgisgæslunnar tóku í kveðjuhófinu.    

 
Gestir samankomnir á starfsstöð Landhelgisgæslunnar á Öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.
 
Starfsmenn Landhelgisgæslunnar, þau Ásgeir R. Guðjónsson, Edda Guðrún Guðnadóttir og Erla Arnoddsdóttir en þau þrjú hafa mikið komið að verkefninu undanfarið.
 
Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar þakkar bandaríska flughernum fyrir samstarfið undanfarnar vikur.
 

Yfirmaður bandarísku flugsveitarinnar, Lt. Col. Jeffrey Beckel þakkar Jóni B. Guðnasyni framkvæmdastjóra Landhelgisgæslunnar í Keflavík fyrir góðar móttökur og störf Landhelgisgæslufólks.

 
Gestir voru ánægðir með kökurnar sem í boði voru.
 
Ljúffengum veitingum gerð góð skil.