Fallbyssuæfing á varðskipinu Þór
- Áhöfninni tókst allvel að hitta í mark.
14.4.2020 Kl: 13:20
Áhöfnin á varðskipinu Þór dustaði rykið af fallbyssu skipsins á dögunum. Tilgangurinn var ekki sá að aðvara landhelgisbrjóta í lögsögunni heldur til að viðhalda kunnáttu áhafnarinnar. Fallbyssuæfing var því haldin á dögunum þegar varðskipið var statt um 10 sjómílur norðvestur af Straumnesi. Æfingin fór þannig fram að tíu skyttur skutu alls 70 skotum á tvö fiskikör sem bundin voru saman. Áhöfninni tókst allvel að hitta í mark en fiskikörin voru í 200-300 metra fjarlægð frá skipinu.
Sem betur fer er það nær óþekkt, að minnsta kosti í seinni tíð, að áhafnir varðskipa Landhelgisgæslunnar þurfi að grípa til vopna og þar af leiðandi eru fallbyssur skipanna ekki mikið notaðar. Nú til dags gerist það einkum við hátíðleg tilefni en þá er skotum gjarnan hleypt af fallbyssunni í heiðursskyni.
Á árum áður voru fallbyssur meðal annars notaðar til að skjóta púðurskotum að skipum sem svöruðu ekki kalli. Ef menn létu sér ekki segjast gátu þeir átt von á að fá fallbyssukúlu í skipið. Fallbyssur voru lítið notaðar í þorskastríðunum en þó kom það fyrir.
Fallbyssan um borð í varðskipinu Þór er af gerðinni Bofors L60 með 40 mm. hlaupvídd. Til að skjóta af byssunni þarf þrjá skipverja þar sem hún er handvirk. Sömuleiðis þarf vökult auga stjórnanda í brú sem veitir upplýsingar um fjarlægð og stefnu á skotmarkið auk þess að gefa fyrirmæli um hvenær hleypt skuli af fallbyssunni.
Fallbyssuæfing á varðskipinu Þór
Fallbyssuæfingin gekk vel.