UM OKKUR

Sagan

4_VS_ODINN_1

Hinn 23. júní árið 1926 kom til landsins fyrsta varðskipið, sem smíðað var fyrir Íslendinga. Það var gufuskipið Óðinn, 512brúttólesta skip, vopnað tveimur 57 mm fallbyssum. Íslensk landhelgisgæsla hefst þó fyrr eða upp úr 1920 og þá með leiguskipum. Ávallt síðan hafa starfsmenn Landhelgisgæslunnar gætt hagsmuna þjóðarinnar við verndun fiskimiðanna og björgunarstörf, stundum í kröppum dansi, eins og alkunna er. Þeir hafa einnig ávallt verið reiðubúnir til þess að aðstoða sjófarendur og fólk úti á landsbyggðinni, oft á tíðum við erfiðustu aðstæður, þegar öll sund hafa virst lokuð. Að auki hafa þeir lögum samkvæmt gegnt hinum margvíslegustu þjónustuhlutverkum við strendur landsins og á landgrunninu. Mynd Óðinn I. Úr myndasafni Valdimars Jónssonar loftskeytamanns.

Útlendingar hófu veiðar við Íslandsstrendur í upphafi fimmtándu aldar, að því er talið er. Það voru breskir fiskimenn, sem fyrstir sóttu hingað norður í höf, en fljótlega bættust fiskimenn annarra Vestur-Evrópuþjóða í hópinn. Samskipti landsmanna og erlendu fiskimannanna voru yfirleitt góð, þótt á stundum kastaðist í kekki. Einkum eru dæmi um slíkt eftir að dönsk stjórnvöld tóku að sjá ofsjónum yfir þessum veiðum og þeirri verslun, sem tókst með hinum erlendu fiskimönnum og landsmönnum.

Í lok nítjándu aldar verða þáttaskil í þessum samskiptum. Þá hófu bresk fiskiskip veiðar með botnvörpu hér við land. Þau sýndu oft yfirgang og stunduðu jafnvel veiðarnar svo til uppi í landsteinum. Bresku togararnir toguðu iðulega yfir fábrotin veiðarfæri fátækra fiskimanna, án þess að þeir gætu rönd við reist. Urðu af þessu átök og bresku fiskimennirnir oft illa þokkaðir. Hörðustu átökin um aldamótin urðu síðla árs 1899, þegar Hannes Hafstein skáld og sýslumaður, og síðar ráðherra, hugðist taka breskan togara í landhelgi svo til uppi í landsteinum í Dýrafirði. Þeirri viðureign lauk þannig að þrír Íslendingar drukknuðu, en sýslumaður komst af við illan leik.

Danir önnuðust í upphafi landhelgisgæslu við landið, en hún þótti á stundum slælega rekin. Hingað voru send dönsk varðskip yfir sumarmánuðina, eða frá vori og fram á haustdaga, en að vetrarlagi var ekkert eftirlit með veiðiþjófunum við landið.

Samhliða auknu frelsi þjóðarinnar uxu kröfur um bætta landhelgisgæslu. Þegar Íslendingar fengu heimastjórn árið 1904, féllst danska stjórnin á að láta smíða sérstakt eftirlitsskip til landhelgisgæslu hér við land. Skipið kom í gagnið árið 1906 og hét Islands Falk.

Árið 1913 samþykkti Alþingi lög um stofnun Landhelgissjóðs Íslands, sem starfar enn í dag. Með þessum lögum var samþykkt, að sektarfé fyrir ólöglegar veiðar við Ísland skyldi renna í Landhelgissjóðinn, sem verja átti til eflingar landhelgisvörnum. Hefur sjóðurinn æ síðan verið einn af hornsteinum íslenskrar landhelgisgæslu.

Með hinum sögulegu sambandslögum árið 1918, þegar Ísland varð fullvalda ríki, var ákveðið að Danmörk hefði á hendi landhelgisgæslu hér við land undir dönskum fána, meðan samningurinn væri í gildi, þ.e. í 25 ár eða "þar til Ísland kynni að ákveða að taka hana í sínar hendur að öllu eða nokkru leyti á sinn kostnað", eins og segir í sambandslögunum. Er ljóst að báðar þjóðirnar stefndu að því að landhelgisvarslan yrði í höndum Íslendinga. Þangað færðist hún einnig smám saman, en þó önnuðust Danir vissa gæslu hér við land ásamt Íslendingum alveg fram að síðari heimsstyrjöld.

Ári eftir samþykkt sambandslaganna 1919 samþykkti Alþingi lög um landhelgisvörn, þar sem landsstjórninni var heimilað "að kaupa eða láta byggja, svo fljótt sem verða má, eitt eða fleiri skip til landhelgisvarna með ströndum Íslands". Einnig var í lögunum heimild fyrir stjórnina til þess að taka á leigu skip á meðan hentugt skip væri í smíðum. Var þessi heimild notuð og á næstu árum tók landsstjórnin bæði báta og skip á leigu til landhelgisvörslu.

tor_1

Það var þó ekki fjárvana landssjóður, sem keypti fyrsta íslenska björgunarskipið. Árið 1920 keypti Björgunarfélag Vestmannaeyja rúmlega 200 rúmlesta, tuttugu og eins árs gamalt danskt skip, Thor sem upphaflega var togari smíðaður í Englandi fyrir dansk-íslenska verslunar- og fiskveiðifélagið á Geirseyri, til þess að hafa eftirlit með fiskibátum Eyjamanna og aðstoða þá eftir því sem þörf gerðist. Björgunarfélagið fékk styrk úr landssjóði til kaupanna er nam þriðjungi kaupverðsins. Skipinu var gefið nafnið Þór.

Útgerð skipsins varð Vestmannaeyingum kostnaðarsöm og naut hún styrks úr landssjóði. Dómsmálaráðuneytið fór fljótlega að huga að því að nýta skipið einnig til landhelgisgæslu, og árið 1924 var sett á það 47 mm fallbyssa. Árið eftir hófst svo smíði Óðins úti í Danmörku og um það leyti sem Óðinn kom í gagnið keypti landssjóður Þór af Björgunarfélagi Vestmannaeyja og fékk afsal fyrir skipinu 1. júlí 1926, en landssjóður hafði þá annast rekstur skipsins um nokkurra ára skeið.

Árið 1930 var Landhelgisgæslan falin Skipaútgerð ríkisins, en æðsti yfirmaður Landhelgisgæslunnar var þó dómsmálaráðherrann, svo sem verið hefur frá upphafi og er fram á þennan dag. Mun tilgangurinn með því að fela Skipaútgerðinni reksturinn hafa verið sá að með því móti mætti draga úr rekstrarkostnaði. Það mun þó mála sannast að við þetta varð Landhelgisgæslan hálfgert olnbogabarn og endurnýjun skipaflotans varð lítil næstu árin. Landhelgisgæslan varð síðan sjálfstæð stofnun árið 1952 og sérstakur forstjóri ráðinn.

Árið 1948 samþykkti Alþingi hin merku lög, "um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins", þar sem kveðið var á um yfirráð Íslendinga yfir landgrunninu og rétti þeirra til nýtingar þeirra fiskstofna, sem þar lifðu svo og víðtækar rannsóknir á þeim. Þessi lög voru einstæð í heiminum, þegar þau voru samþykkt, og á þeim hafa síðan byggst allar aðgerðir Íslendinga til verndar fiskstofnum okkar, þar með talin útfærsla fiskveiðilandhelginnar. Landhelgi Íslands var þrjár sjómílur, eins og almennt tíðkaðist, þegar landgrunnslögin voru sett. Viðmiðunarstaðir voru fjölmargir og það voru aðeins þröngir firðir, sem voru alfriðaðir. Allir stórir flóar voru opnir erlendum veiðiskipum upp að þremur mílum frá landi.

Albert_med_Trave

Báðar heimsstyrjaldirnar urðu til þess að erlend fiskiskip veiddu ekki hér við land meðan ófriður stóð yfir. Álagið var samt mikið á starfsmenn Landhelgisgæslunnar, því mörg voru verkefnin, meðal annars mikil björgunarstörf, eyðing tundurdufla og margs konar flutningar á fólki og vörum, vegna almenns skipaskorts.

Þegar síðari styrjöldinni lauk flykktust erlendu fiskiskipin að nýju á Íslandsmið. Mönnum varð ljóst að taumlaus rányrkja var í uppsiglingu, og árið 1952 var landhelgin færð út á grundvelli landgrunnslaganna frá 1948. Sjálf útfærslan var ekki nema ein sjómíla, en sú mikla breyting varð á, að nú var miðað við ystu annes og eyjar, allt í kringum landið, þannig að hinir stóru flóar urðu alfriðaðir. Við þetta stækkaði fiskveiðilandhelgin úr 25 þúsund km2 í 43 þúsund km2.

Erlendar fiskveiðiþjóðir misstu við þetta spón úr aski sínum, einkum Bretar, sem ávallt höfðu sótt mest erlendra þjóða á Íslandsmið. Þeir reyndu að kúga Íslendinga til þess að láta af útfærslunni, meðal annars með víðtæku löndunarbanni á íslenskan fisk í breskum höfnum. Þeir höfðu þó ekki erindi sem erfiði, því að Íslendingar komu með mótleik. Þeir stórefldu hraðfrystiiðnað sinn og öfluðu sér nýrra markaða.

Með útfærslunni 1952 var hrundið af stað þróun, sem ekki varð stöðvuð. Mönnum varð ljóst, að miklu víðtækari friðunaraðgerða var þörf til þess að vernda fiskistofnana á íslenska landgrunninu gegn sífellt stærri og betur búnum veiðiskipum, bæði erlendum og innlendum. Því var fiskveiðilögsagan enn færð út árið 1958 og í það skiptið í 12 sjómílur. Við það stækkaði fiskveiðilögsagan úr 43 þúsund km2 í 70 þúsund km2.

 

Togvklippur_Baldur_-_Halldor_B._Nellett

 

Nú urðu viðbrögð Breta harðari en áður, enda vissu þeir að löndunarbann yrði lítils virði. Þeir sendu herskip á vettvang og hótuðu að sökkva íslensku varðskipunum. Fyrsta raunverulega þorskastríðið hófst.

Aldrei hefur athygli þjóðarinnar beinst eins að Landhelgisgæslunni og starfsmönnum hennar og í þorskastríðunum þremur. Þjóðin stóð einhuga að baki aðgerðum og hvatti starfsmenn Landhelgisgæslunnar óspart til dáða. Síendurteknar hótanir breskra flotaforingja um að láta vopnin tala, hertu menn einungis upp. Segja má að fyrsta þorskastríðið hafi verið stórátakalítið, miðað við það sem síðar varð, fremur taugastríð en vopnaskak. Svo fór að báðir aðilar gáfu nokkuð eftir og Bretar sættust á að viðurkenna 12 mílna fiskveiðilögsöguna, gegn því að fá að veiða um nokkurn tíma innan hennar, en engu að síður var þetta mikill sigur fyrir okkur Íslendinga.

Fordæmi Íslendinga vakti mikla athygli annarra þjóða, einkum þeirra er áttu auðug fiskimið undan ströndum sínum. Fleiri og fleiri fetuðu í fótspor Íslendinga og hreyfing komst á málin á alþjóðavettvangi, þar sem menn fóru að ræða um enn stærri fiskveiðilögsögu.

Árið 1972 færðu Íslendingar fiskveiðilögsögu sína enn út og nú í 50 sjómílur og aftur 1975 í 200 sjómílur. Við það stækkaði lögsagan úr 75 þúsund km2 í 216 þúsund km2 árið 1972 og í 758 þúsund km2 árið 1975.

Nú brugðust Bretar enn harðar við, enda var þeim og öðrum úthafsveiðiþjóðum ljóst, að hér var ekki einvörðungu um íslensku fiskveiðilögsöguna að tefla, heldur hlutu úrslit mála að ráða miklu um hver framtíðarþróunin yrði á alþjóðavettvangi.

Bretar sendu flota herskipa og aðstoðarskipa á vettvang í öðru og þriðja þorskastíðinu, og skipuðu togurum sínum að veiða undir þeirra vernd innan fiskveiðilögsögunnar. Einnig sendu þeir hingað öfluga dráttarbáta, sem einkum virtust hafa það hlutverk að sigla á íslensku varðskipin og gera þau óvirk. Hvað eftir annað reyndu flotaforingjarnir að sigla varðskipin niður á herskipum og dráttarbátum, og urðu oft háskalegir árekstrar. Ekki er ofsagt að það hafi verið hrein mildi að ekki urðu stórslys í þorskastríðunum, en íslensku skipherrarnir og starfsmenn þeirra sýndu fádæma leikni og hugkvæmni við að gera Bretunum lífið óbærilegt innan fiskveiðilögsögunnar.

Það sem mest fór í taugarnar á Bretum voru togvíraklippur, sem Íslendingar útbjuggu og notuðu til þess að skera veiðarfærin aftan úr bresku togurunum. Varðskipin laumuðust inn í togaraþvöguna og drógu klippurnar á eftir sér. Reyndu þá bæði togarar og verndarskip þeirra, herskip og dráttarbátar, að sigla varðskipin niður.

Eins og allir vita lauk þessum þremur þorskastríðum öllum á einn veg: Með fullum sigri Íslendinga. Stefna þeirra sigraði einnig á alþjóðavettvangi, þrátt fyrir mjög harða andstöðu margra voldugra þjóða. Þessir sigrar hefðu ekki unnist nema vegna frábærra starfa allra starfsmanna Landhelgisgæslunnar, hárra sem lágra. 

Fiskveiðideilur Íslendinga við erlendar þjóðir

Formáli - Guðni Th. Jóhannesson

 

Þær ritgerðir, sem hér eru birtar, voru skrifaðar í námskeiði um þorskastríðin og fiskveiðideilur Íslendinga við erlendar þjóðir sem ég kenndi við sagnfræðiskor Háskóla Íslands á vorönn ársins 2005. Í upphafi námskeiðsins stakk ég upp á því við nemendurna að við reyndum að setja saman nokkurs konar yfirlit um sögu þorskastríðanna. Því var vel tekið og sem betur fer heltust aðeins örfáir úr lestinni þegar á leið. Við ákváðum því í námskeiðslok að athuga hvort unnt væri að gera yfirlitið aðgengilegt á netinu. Í ljósi þess hve Landhelgisgæsla Íslands kom mikið við sögu í átökunum um útfærslu fiskveiðilögsögunnar lá beint við að leita til hennar. Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, samþykkti með ánægju að hýsa skrifin á vef hennar og á þakkir skildar fyrir það. Gunnar Páll Baldvinsson, einn nemenda námskeiðsins, tók að sér að búa yfirlitið til netútgáfu og gegndi því verki með miklum sóma.

Auðvitað bera skrifin þess merki að þetta eru í raun námsritgerðir. Öllum athugasemdum og ábendingum um það, sem betur má fara, skal beint til mín, enda ber ég ábyrgð á því að ákveðið var að birta skrifin á netinu. Hugmynd okkar var hins vegar sú að í stað þess að hver nemandi skrifaði aðeins ritgerð, sem enginn læsi síðan nema kennarinn og kannski örfáir aðrir, myndum við stefna að því að auka aðeins við þekkingu manna á þorskastríðunum og fiskveiðideilum Íslendinga. Landhelgisgæsla Íslands og Hugvísindastofnun Háskóla Íslands veittu verkefninu fjárstuðning og er hann þakkaður af heilum hug. Auk þess þakka ég nemendunum öllum sem tóku þátt í þessu verkefni og vona að lesendur verði einhvers fróðari um þennan merka þátt í sögu landsins.

Guðni Th. Jóhannesson

Hugvísindastofnun Háskóla Íslands

[email protected]

Efnisyfirlit

 Formáli bls. 3
Guðni Thorlacius Jóhannesson.

1.      Landhelgismál frá upphafi til upphafs togveiða Breta 1889-91 bls. 4
Gerður Björk Kjærnested

2.      Landhelgismál 1889 til 1901 bls. 9
Atli Rafnsson

3.      Landhelgissamningurinn 1901 og landhelgismál til seinna stríðs  bls. 15
Sigurlaugur Ingólfsson

4.      Landgrunnslögin og aðdragandi þeirra (1945-48)  bls. 21
Guðjón Már Sveinsson

5.      Alþjóðadómstóllinn í Haag og deila Norðmanna og Breta (1948-51)  bls. 27
Karl Ágústsson

6.      Útfærsla úr þremur í fjórar mílur, (1948-52)  bls. 32
Skapti Örn Ólafsson

7.      Löndunarbannið og tilraunir til að brjóta það á bak aftur (1952-53)  bls. 36
Ámundi Ólafsson

8.     Lausn löndunarbannsins (1954-56) bls. 43
Guðbjörg Eva Friðgeirsdóttir

9.      Upphaf fyrsta þorskrastríðsins (1958-59)  bls. 48
Jónas Þór Guðmundsson

10.  Önnur hafréttarráðstefnan (1960)  bls. 56
Úlfur Einarsson

11.  Lausn fyrsta þorskastríðsins (1960-61)  bls. 62
Kristján Pálsson

12.  Landhelgismál (1961-70)  bls. 68
Ólafur Arnar Sveinsson 

13.  Áform um útfærslu í 50 mílur (1970-72)  bls. 73
Hjörtur Hjartarson

14.  Annað þorskastríðið (1972- 19. maí 73)  bls. 79
Sverrir Þór Sævarsson

15.  Annað þorskastríðið (19. maí-nóv 1973)  bls. 85
Guðmundur Hörður Guðmundsson

16.  Hafréttarráðstefnan (1974-76)  bls. 90
Gunnar Páll Baldvinsson  

17.  Átök við Vestur-Þjóðverja (1972-75)  bls. 97
Meike Stommer

18.  Þriðja þorskastríðið (1975- 19. feb. 1976)  bls. 103
Ólafur Ingi Guðmundsson

19.  Þriðja þorskastríðið (19. feb.-júní 1976)  bls. 108
Gestur Pálsson

20.  Jan Mayen deilan (1977-81)  bls. 114
Magnús Már Guðmundsson

21.  Smugudeilur  bls. 119
Hjörtur J. Guðmundsson

22. Skipakostur Breta og Íslendinga í þorskastríðunum
Sigurlaugur Ingólfsson

 

Allar ritgerðir í einu skjali (pdf)

Togvíraklippur voru helsta vopn Landhelgisgæslunnar í þorskastríðunum 1972 og 1975. Þeim var fyrst beitt 5. september 1972 kl. 10:25. Þann dag kom varðskipið Ægir að togara að veiðum norðaustur af Hornbanka. Togarinn var ómerktur, járnplötur soðnar yfir nafn og númer og enginn þjóðfáni sjáanlegur. Einnig var málað yfir einkennisstafina á reykháfi. Guðmundur Kjærnested, sem var skipherra á Ægi, segir svo frá í æviminningum sínum:

...varð mikið uppistand meðal bresku togaranna sem þarna voru á veiðum um 22 sjómílur innan nýju 50 mílna markanna. Allir hífðu upp trollin og komu siglandi á fullri ferð. Við á Ægi fórum hring um óþekkta togarann og komum nærri stjórnborðs skuthorni hans. Áhöfnin stóð á bátaþilfari og skipverjar köstuðu kolamolum og alls kyns rusli yfir varðskipið. Einn skipverja á togaranum kastaði stórri brunaöxi sem fór í sjóinn á milli skipanna.

Klippurnar1

Um mikilvægan atburð var að ræða því með togvíraklippingunni sannaði Gæslan að hún var fullfær um að framfylgja íslenskum lögum, þau væru ekki innantómur bókstafur með ekkert afl að baki sér.

Klippurnar2

Tæknin, sem notuð var við klippingarnar, var hugmynd Péturs Sigðurssonar forstjóra Landhelgisgæslunnar frá því þegar Íslendingar færðu landhelgina út í 12 mílur. Aldrei var þó klippunum beitt á þeim tíma. Tilraunir með togvíraklippurnar voru gerðar á varðskipunum Ægi og Maríu Júlíu seint á árinu 1958 og lauk þeim rétt fyrir áramót. Þá þótti fullreynt að klippurnar dygðu til þess að klippa sundur togvíra á svo miklu dýpi að ekki yrði tjón á skipi eða slys á mönnum. Klippurnar, sem eru í raun fjórir hnífar, voru dregnar þvert yfir togvíra veiðiþjófanna og skáru vírana í sundur.

 

Forsagan

Vegna þess hversu hafið umhverfis Ísland þykir gjöfult á fisk hafa erlendir sjómenn stundað veiðar á Íslandsmiðum í að minnsta kosti allt frá byrjun 15. aldar, en frá þeim tíma eru til frásagnir um enskar skútur sem stunduðu veiðar hér við land. Síðan bættust m.a. við Þjóðverjar og Frakkar. Lengst af tóku Íslendingar sjálfir lítinn þátt í kapphlaupinu um fiskinn - stunduðu aðeins veiðar á litlum árabátum sem héldu ekki langt frá landi meðan erlendar þjóðir stunduðu miðin á stórum skútum.

Undir lok 19. aldar og í upphafi 20. aldar fór þetta þó að breytast. Þá fóru Íslendingar að stunda sjóinn á stærri skipum en áður hafði tíðkast. Þetta kallaði á aukna sókn hér við land auk þess sem erlend skip urðu stærri og öflugri. Þannig er t.d. talið að árið 1904 hafi 180 erlendir togarar (skip sem veiða með botnvörpu) og þar af 150 bresk verið á Íslandsmiðum. Árið 1905 eignuðust Íslendingar sinn fyrsta togara og níu árum seinna voru þeir orðnir 20 talsins.

Fyrir kom að siglingum erlendra sjómanna hingað til lands fylgdu árekstrar við landsmenn og er farið var að nota botnvörpur á Íslandsmiðum undir lok 19. aldar óttuðust margir að þessi stórvirku veiðafæri hreinsuðu upp fiskinn í sjónum og eyðilegðu hrygningarstöðvar.

Íslendingar gátu þó lítið gert í þessum málum sjálfir, enda landið hluti af danska ríkinu til ársins 1918.

Árið 1901 gerðu Danir og Englendingar samkomulag um þriggja mílna landhelgi og fiskveiðilögsögu við Ísland. Þessi samningur féll ekki úr gildi fyrr en eftir heimsstyrjöldina síðari og fyrst þá gátu Íslendingar farið að hreyfa við útfærslu fiskveiðilögsögunnar.

3milur-sm

Kortið sýnir 3. mílna landhelgina og fiskveiðilögsöguna við Ísland eins og hún var frá 1901 til 1952.

4 mílna útfærslan árið 1952

Á árunum upp úr 1930 fengu menn vaxandi áhuga fyrir því að koma á alþjóðlegu samkomulagi um friðun mikilvægustu hrygningar- og uppeldisstöðva nytjafiska. Ekki lögðust slíkar hugmyndir vel í alla og t.d. féllust bresk stjórnvöld aldrei á annað en að allt hafsvæði þremur sjómílum frá ströndu væri úthaf og öllum opið til nýtingar.

Rétt eins og gerst hafði á árum heimsstyrjaldarinnar fyrri (1914 – 1918) voru íslensk fiskimið að mestu laus við erlendan ágang á árum heimsstyrjaldarinnar síðari frá 1939 – 1945. Stuttu eftir að friður komst á fóru fiskveiðiþjóðir Evrópu að senda fleiri og öflugri veiðiskip á Íslandsmið en áður hafði þekkst samhliða því sem Íslendingar efldu fiskveiðiflota sinn.

Í kjölfar þessa varð sóknin í fiskinn á Íslandsmiðum að á árunum 1949 – 1952 svo mikil að ýsuaflinn dróst t.d. saman um 32% og skarkolaflinn um 47%.

Viðbrögð Íslendinga við tölum sem þessum sem margir töldu boða dauðadóm yfir sjávarútvegnum ef ekki yrði brugðist við var að setja lög árið 1948 um vísindalega vernd fiskveiðistofna á landgrunninum. Í framhaldi að lagasetningunni sögðu Íslendingar upp samningnum frá 1901 árið 1949 með tveggja ára fyrirvara eins og sá samningur gerði ráð fyrir að hægt væri að gera.

Á grundvelli þessara laga var gefin út reglugerð fjórum árum seinna um fjögra mílna fiskveiðilandhelgi frá grunnlínum sem dregnar voru fyrir minni fjarða og flóa. Viðbrögð ríkisstjórna Belgíu, Bretlands, Frakklands og Vestur-Þýskalands var að mótmæla reglugerðinni, en allar virtu þær þó hina nýju fiskveiðilögsögu fyrir utan Breta sem gripu til þeirra aðgerða að setja löndunarbann á íslenskan fisk og átti það bann eftir að standa til ársins 1956.

Íslendingar brugðust við löndunarbanninu með því að stórauka útflutning til bæði Bandaríkjanna og Sovétríkjanna auk þess sem verkun á fiski í frystihúsum jókst á kostnað ísfisk, þ.e. ferskum fiski sem m.a. hafði verið fluttur út til Bretlands.

Íslendingar höfðu unnið að útfærslunni í takt við þróun alþjóðamála. Þannig biðu þeir eftir úrskurði Alþjóðadómstólsins í Haag í Hollandi um heimild Norðmanna til að marka sér fiskveiðilögsögu á sömu forsendum og lögin um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins frá árinu 1948 gerðu ráð fyrir. Og það var ekki fyrr en að útskurðinn féll Norðmönnum í vel sem ráðist var í fjögra mílna útfærsluna. Einnig horfðu Íslendingar til Bandaríkjamanna sem á árum heimsstyrjaldarinnar síðari höfðu sett lög sem fólu í sér rétt á nýtingu auðæfa innan síns landgrunns.

4milur-sm

1952 - Útfærsla úr 3 í 4 sjómílur.

12 mílna útfærslan árið 1958

Árið 1958 var fyrsta hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna haldin í Genf í Sviss. Sú ráðstefna breytti ekki miklu og ekki voru neinar stórvægilegar samþykktir gerðar. Í kjölfar hennar ákváðu Íslendingar þó að færa fiskveiðilögsöguna út í 12 sjómílur frá grunnlínupunktum.

Viðbrögð Breta við 12 mílna útfærslunni árið 1958 létu ekki á sér standa. Bæði mótmæltu þeir ákaft og sendu herskip til þess að verja togara sína gegn íslensku varðskipunum svo þeir gætu stundað veiðar upp að fjögra mílna mörkunum.  Hófst nú fyrsta eiginlega þorskastríðið þó ekki skærist verulega í odda á miðinum milli íslensku varðskipanna og bresku herskipanna.

Þessi deila stóð til ársins 1961 er samkomulag náðist.  Samkomulagið fól í sér að Bretar fengu áfram að veiða innan íslensku fiskveiðilögsögunnar í þrjú ár frá 6 mílum upp í 12 mílur.  Auk þess féllust Íslendingar á að vísa mætti deilum um frekari útfærslu fiskveiðilögsögunnar til Alþjóðadómstólsins í Haag.

12milur-sm

1958 - Útfærsla í 12 sjómílur.

Árin eftir 12 mílna þorskastríðið dró enn ískyggilega úr aflabrögðum við Ísland.  Því ákváðu íslensk stjórnvöld árið 1971 að segja upp samningnum við Breta og Alþingi samþykkti að færa fiskveiðilögsöguna út í 50 sjómílur.  Sú útfærsla tók gildi í september árið 1972. 

Viðbrögð Breta voru eins og vænta mátti – hörð mótmæli og skip voru send á vettvang til að vernda bresku togarana gegn íslensku varðskipunum.        

En nú voru Íslendingar komnir með nýtt vopn gegn landhelgisbrjótum, svokallaðar togvíraklippur sem skorið gátu botnvörpur aftan úr breskum togurum með tilheyrandi tilkostnaði fyrir útgerðina.  Frá september 1972 til nóvember 1973 tókst íslensku varðskipunum að beita þeim með árangursríkum hætti í 82 skipti gegn breskum togurum sem voru að veiðum innan 50 mílna markanna.                

Undir lok árs 1973 var samið við Breta til bráðabirgða.  Samkvæmt þeim samningu máttu erlend skip stunda veiðar á tilteknum svæðum milli 12 mílna og hinnar nýju 50 mílna fiskveiðilögsögu.  Þessi undanþága náði þó ekki til frysti- og verksmiðjutogara. 

Vestur-Þjóðverjar gátu ekki sætt sig við það og héldu því áfram að veiða innan íslenskrar fiskveiðilögsögu, auk þess sem löndunarbann var sett á íslensk skip í þarlendum höfnum árið 1974.

Vestur-Þjóðverjar sendu þó ekki herskip eða önnur skip á miðin til að vernda togara sína gegn íslensku varðskipunum.  Samkomulag náðist ekki við Vestur-Þjóðverja fyrr en undir lok árs 1975. 

50milur-sm

1972 - Útfærsla í 50 sjómílur.

Í október 1975 færðu íslendingar fiskveiðilögsöguna út í 200 mílur. Byrjaði nú harðasta þorskastríðið með ásiglingum breskra verndarskipa og botnvörpuklippingum íslensku varðskipanna.

Svo alvarleg varð nú deilan að íslensk stjórnvöld ákváðu að slíta stjórnmálasambandi við Breta og kölluðu sendiherra sinn í London heim og vísuðu breska sendiherranum í Reykjavík úr landi. Eins og áður hótuðu Íslendingar einnig því að segja sig úr Norður-Atlantshafsbandalaginu (NATO). Sögðu menn það til lítils að vera í varnarbandalagi sem kæmi ekki til aðstoðar þegar landið væri undir erlendri árás.

Eins var hótunin sem slík sterkt vopn þar sem lega Íslands gerði landið hernaðarlega mikilvægt á dögum kaldastríðsins og því mikilvægt fyrir önnur aðildarríki að hafa landið innan sinna vébanda. Þetta vissu Íslendingar og reyndu því að fá Bandaríkjamenn til þess að stöðva aðgerðir Breta.

Sumarið 1976 náðust þó sáttir í deilunni og var samið um að 24 breskir togarar mættu veiða innan 200 mílna markanna til 1. desember sama ár og síðan ekki meir. Lauk nú deilunum og átöktunum sem fylgt höfðu útfærslu efnahagslögsögunnar undanfarna áratugi.

Útfærsla efnahagslögsögunnar frá 4 upp í 200 sjómílur hafði mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir þá bresku fiskveiðibæi þar sem margir höfðu átt allt sitt undir fiskveiðum á Íslandsmiðum. Í bæjum eins og Grimsby og Hull varð atvinnuleysi varanlegt þar sem margir sjómenn og verkafólk í landi sem starfað hafði í fiskvinnslu missti vinnuna.


200milur-sm

1975 - Útfærsla í 200 sjómílur.

Hvers vegna vannst sigur?

Það voru einkum fjórar ástæður sem réðu því að Íslendingar höfðu betur en Bretar þegar tekist var á um útfærslu efnahagslögsögunnar. 

  • Í fyrsta lagi höfðu aðgerðir íslensku varðskipana á miðinum, t.d. að beita klippunum, þær afleiðingar í för með sér að bresku togararnir urðu að veiða undir herskipavernd og það var ávallt ljóst að slíkar veiðar væri ekki hægt að stunda til lengdar.
  • Í öðru lagi var þróunin á alþjóðavettvangi Íslendingum í hag þar sem fleiri og fleiri ríki töluðu fyrir stærri efnahagslögsögu.
  • Í þriðja lagi var hótun Íslendinga að segja sig úr Norður-Atlantshafsbandalaginu (NATO) og þar með reka bandarískaherinn úr landi sterkt vopn á dögum kalda stríðsins. 
  • Í fjórða lagi voru margir sem höfðu samúð með litla Íslandi í baráttunni gegn hinu gamla breska heimsveldi.
Togvíraklippurnar 

Klippurnar1

Togvíraklippurnar sem minna hvað mest á ankeri eru í raun fjórir hnífar sem geta skorið í sundur togvíra á botnvörpum þegar þær eru dregnar þvert yfir þá.

Klippurnar voru helsta vopn Landhelgisgæslunnar gegn enskum togurum sem stunduðu veiðar innan nýrrar efnahagslögsögu í þorskastríðunum 1972 og 1975.  

Klippurnar komu fyrst fram árið 1958 (var þó ekki beitt í þorskastríðinu sem þá stóð yfir) og eru hugmynd Péturs Sigurðssonar þáverandi forstjóra Landhelgisgæslunnar.

Þegar klippurnar voru notaðar var klippt á togvíra ensku landhelgisbrjótanna á miklu dýpi svo ekki yrðu slys á mönnum eða tjón á skipum. Botnvörpur togaranna voru hins vegar úr sögunni með ærnum tilkostnaði fyrir útgerðina.

(Sjá einnig texta um klippurnar hér.)

Klippurnar2

 

Texti: Halldór B. Ívarsson
Kort: Sjómælingar Íslands

Áfangar í íslenskum varnarmálum

Ísland er herlaust ríki sem hervæðist ekki en tryggir öryggi sitt og varnir með samstarfi við önnur ríki.  

 Fyrsti alþjóðasamningur íslenskra stjórnvalda um varnarmál  var gerður árið 1941 þegar samið var við Bandaríkjamenn um að taka við vörnum landsins af Bretum.  Bretar höfðu hernumið Ísland 1940 um líkt  leyti og Þjóðverjar herná

mu Danmörku. Fram að því fóru Danir með utanríkis- og varnarmál Íslendinga.  Þegar heimsstyrjöldin var um garð gengin gerðu íslensk og bandarísk stjórnvöld svonefndan Keflavíkursamning frá 1946.

Sagan_undirskrift

Stofnaðili Atlantshafsbandalagsins

4. apríl 1949 gerðust Íslendingar stofnaðilar að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og voru meðal tólf vestrænna þjóða sem undirrituðu stofnsáttmála bandalagsins í Washington.  Enn í dag eru markmið NATO þau sömu og í upphafi, að tryggja öryggi og frið í Evrópu.  Bandalagið hefur lagað sig að breyttum aðstæðum í Evrópu með inngöngu nýrra aðildarríkja og auknu samráði og samvinnu við önnur ríki. Ísland á ríka samleið með öðrum aðildarríkjum NATO í bandalagi sem byggist á meginreglum lýðræðis.

Tvíhliða varnarsamningur við Bandaríkin

5. maí 1951 undirrituðu Íslendingar tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin, sem kom í stað Keflavíkursamningsins. Með varnarsamningnum tóku Bandaríkjamenn að sér umsjón með hervörnum Íslands en Íslendingar létu varnarliði Bandaríkjamanna í té Keflavíkurflugvöll og annað nauðsynlegt landsvæði í þágu varna landsins.

Fjórar ratsjárstöðvar reknar frá 1953 til 1958

Gunnolfsvikurfjall-ad-vetri

 Á árunum 1953 til 1958 hóf bandaríska herliðið rekstur fjögurra ratsjárstöðva til eftirlits með flugumferð í grennd við Íslands. Ratsjárstöðvarnar voru staðsettar á Miðnesheiði á Reykjanesi, á Heiðarfjalli á Langanesi, á  Stokksnesi við Hornafjörð og á Straumnesfjalli norðan Aðalvíkur.

Ratsjárstöðvunum á Heiðarfjalli og á Straumnesfjalli var lokað á árunum 1960 til 1961 en á árunum 1976 til 1983 tvöfaldaðist fjöldi útkalla sem orrustuflugvélar bandaríska herliðsins Ratsjárstöðin Miðnesheiði sinntu vegna umferðar óþekktra flugvéla í grennd við Ísland.  Ljóst varð að vegna þessa þyrfti að auðvelda  varnarliðinu að rækja eftirlitshlutverk sitt og tryggja jafnframt betur öryggi almenns farþegaflugs. Vænlegast var talið að leysa vandann með því að byggja nýjar ratsjárstöðvar á norðvestur- og norðausturlandi.

Í nóvember 1983 hófst ítarleg athugun á því með hvaða hætti og hversu fljótt væri hægt að reisa nýjar ratsjárstöðvar á Vestfjörðum og Norðausturlandi auk þess að endurnýja aðrar ratsjárstöðvar.  Í maí 1985 var Ratsjárnefnd stofnuð til að hafa eftirlit með endurnýjun ratsjárkerfisins fyrir hönd íslenskra stjórnvalda.

Ratsjárstofnun verður til

 Ratsjárstofnun hóf starfsemi í maí 1987 eftir að íslensk og bandarísk stjórnvöld gerðu samning um að Íslendingar yfirtækju rekstur ratsjárstöðva bandaríska varnarliðsins á Íslandi.

Uppbygging kerfisins var gerð á kostnað Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins (NATO) en íslenska loftvarnakerfið er hluti af samhæfðu loftvarnakerfi Atlantshafsbandalagsins og rekstur þess byggist meðal annars á þeirri skuldbindingu sem fylgir aðild Íslendinga að Atlantshafsbandalaginu.

Eftir fall Sovétríkjanna og lok kalda stríðsins dró smám saman úr umsvifum varnarliðs Bandaríkjamanna hér á landi.  Viðræður ríkjanna um breytt fyrirkomulag landvarna á grundvelli samningsins frá 1951 hófust um miðja tíunda áratug síðustu aldar en leiddu aldrei til endanlegrar niðurstöðu.

Dvöl bandaríkjahers lýkur

 Árið 2006 tilkynntu Bandaríkjamenn Íslendingum með skömmum fyrirvara um þá ákvörðun sína að flytja orrustuþotur sínar og björgunarþyrlur burt frá Íslandi ásamt öllum liðsafla og leggja niður starfsemi á Keflavíkurflugvelli.   Eftir brottför Bandaríkjamanna 30. september 2006 náðu ríkin tvö samkomulagi um sérstaka varnaráætlun á grundvelli samningsins frá 1951, sem nær yfir varnir gegn hefðbundinni hernaðarógn á ófriðartímum. Með varnaráætluninni afsöluðu Bandaríkjamenn sér ábyrgð á loftvörnum Íslands á  friðartímum.

Eftir brottför bandaríkjahers var samþykkt á vettvangi NATO að Íslendingar héldu áfram starfrækslu íslenska lotfvarnakerfisins og að það yrði samþætt loftvarnakerfi Atlantshafsbandalagsins. Ennfremur var ákveðið að flugsveitir frá herjum bandalagsríkjanna sinntu loftrýmisgæslu við landið fjórum sinnum á ári. Utan þess tíma yrði brugðist við aðsteðjandi hættu  með sérstökum ráðstöfunum af hálfu NATO. 

Í apríl 2008 samþykkti Alþingi Íslendinga svo í fyrsta skipti heildstæð varnarmálalög og staðfesti þá stefnu sem mótuð hafði verið eftir brottför bandaríkjahers.  Meginforsenda laganna er sú að Íslendingar eru og verða herlaus þjóð. Utanríkisráðherra er ráðherra öryggis- og varnarmála.

Varnarmálastofnun sett á fót

 Með varnarmálalögum tók Varnarmálastofnun til starfa 1. júní 2008 á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.
„Með því að reka íslenska loftvarnarkerfið og sjá um önnur þau eftirlits- og varnartengdu verkefni, sem nýstofnsett Varnarmálastofnun á að sinna, erum við Íslendingar í senn að axla ábyrgð á eigin vörnum og um leið að leggja til sameiginlegs öryggis grannríkja okkar á Norður-Atlantshafi og bandalagsríkja í NATO. Þannig rækjum við skyldur okkar sem sjálfstætt, fullvalda ríki," sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, í ávarpi þegar Varnarmálastofnun tók til starfa.

NC2011_IMG_3612

Í desember 2009 var að tillögu utanríkisráðherra skipaður starfshópur fimm ráðuneyta til að gera tillögur um hvernig mætti framfylgja ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að leggja niður Varnarmálastofnun á árinu 2010 og samþætta verkefni hennar hlutverki annarra opinberra stofnana. Skýrt var tekið fram að Ísland stæði áfram við allar varnar- og öryggistengdar skuldbindingar sínar og að forræði á utanríkispólitískum þáttum yrði áfram hjá utanríkisráðherra.

Þann 30. mars 2010 samþykkti ríkisstjórn Íslands að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á varnarmálalögum nr. 34/2008 í samræmi við niðurstöður í skýrslu starfshópsins. Í skýrslunni var bent á leiðir til að starfsþættir Varna

rmálastofnunar yrðu hluti af nýrri borgaralegri stofnun, sem sæi um öryggis- og varnarmál á grundvelli borgaralegra gilda innan innanríkisráðuneytisins. 

Þann 16. júní 2010 var frumvarp til laga nr. 98/2010 samþykkt á Alþingi um breytingu á varnarmálalögum nr. 34/2008 í samræmi við niðurstöður í skýrslu starfshópsins. Í samræmi við framangreind lög var Varnarmálastofnun lögð niður frá og með 1. janúar 2011.

Landhelgisgæslu Íslands og embætti Ríkislögreglustjóra taka við rekstri íslenska loftvarnarkerfisins og öðrum eftirlits- og varnartengdum verkefnum

Frá og með 1. janúar 2011 tóku gildi samningar um ráðstöfun þeirra verkefna sem Varnarmálastofnun fór með og falla undir varnarmál samkvæmt Varnarmálalögum. Fóru verkefnin til embættis Ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslu Íslands. Landhelgisgæsla Íslands starfrækir starfsstöð á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Söguágrip flugrekstrar Landhelgisgæslunnar

 Landhelgisgæslan hefur um áratuga skeið notast við flugvélar og þyrlur við löggæslu, eftirlit, leit og björgun auk annarra verkefna. Á árunum eftir síðari heimstyrjöld leigði Landhelgisgæslan stundum flugvélar til að fylgjast með skipaumferð og veiðum í landhelginni, fyrst árið 1948 þegar Grumman Goose-flugbátur var tekinn á leigu. Þetta flug var þó ekki með reglubundnum hætti. 

Áhöfn flugbátsins TF-RAN: Garðar Jónsson loftskm- Guðjón Jónsson flugstjóri - Bragi Nordahl flugstj  - Agnar Ólafur Jónasson flugvélstjóri -  Björn Jónsson flugm. - Grímur Jónsson loftskm - Guðmundur Kjærnested skipherra og Jónas Guðmundsson stýrim. Mynd: Valdimar Jónsson. 

10. desember 1955 eignaðist Landhelgisgæslan sína fyrstu flugvél og er almennt miðað við þá dagsetningu sem upphaf flugrekstrar stofnunarinnar. Þetta var flugbátur af gerðinni PBY-6A Catalina með einkennisstafina TF-RAN. Allar götur síðan hafa loftför Landhelgisgæslunnar borið nöfn ásynja, rétt eins og skipin eru nefnd eftir norrænu goðunum. Catalina-flugbáturinn hafði áður verið í eigu Flugmálastjórnar sem keypti hann skemmdan af varnarliðinu. TF-RAN fór í fyrsta gæsluflugið 29. desember 1955. Nokkrum vikum síðar var sett í hana ratsjá og mun hún vera fyrsta íslenska flugvélin sem búin var slíku tæki.

TF-SIF, Skymaster-flugvél Landhelgisgæslunnar. 

Árið 1962 eignaðist svo Landhelgisgæslan Douglas DC-4 Skymaster flugvél sem hlaut einkennisstafina TF-SIF. Hún var í eigu Gæslunnar til ársins 1971.

Þremur árum síðar urðu svo merkileg þáttaskil í flugrekstrinum. 30. apríl 1965 tók Landhelgisgæslan sína fyrstu þyrlu í notkun. Hún var af gerðinni Bell 47j og var keypt til landsins í samvinnu við Slysavarnafélag Íslands. Þyrlan, sem fékk einkennisstafina TF-EIR, var í notkun þar til í október 1971 en þá brotlenti hún í rannsóknarflugi í Rjúpnafelli. Til allrar hamingju varð ekki manntjón.

TF-EIR um borð í varðskipinu Þór. Að ofan: TF-SIF á flugi nærri Þór. Myndir: Valdimar Jónsson. 

Vaxandi umsvif á áttunda áratugnum

Fyrri hluti áttunda áratugarins einkenndist af miklum umsvifum í flugrekstri Landhelgisgæslunnar enda stóðu þorskastríðin þá sem hæst. Í ársbyrjun 1972 keypti Landhelgisgæslan Fokker F-27 200 flugvél af japanska flugfélaginu All-Nippon og var hún skráð TF-SYR í maí sama ár. Vélin var mikið notuð í öðru og þriðja þorskastríðinu enda nýttist ratsjáin vel til að finna erlenda togara á Íslandsmiðum.

Fokkerinn var fljótur að sanna gildi sitt og því var ákveðið að kaupa aðra samskonar vél. Hún kom til landsins 14. janúar 1977 og skráð TF-SYN. Þessi vinnuhestur átti eftir að vera í þjónustu Landhelgisgæslunnar í rúma þrjá áratugi eða allt þar til Dash 8 Q-300 flugvélin TF-SIF kom til landsins árið 2009.

Árið 1972 eignaðist Landhelgisgæslan svo sína fyrstu eiginlegu björgunarþyrlu, TF-GNA. Hún var af tegundinni Sikorsky S-62, sérstaklega hönnuð til gæslu yfir sjó og gat borið tíu farþega eða sex menn í sjúkrakörfum. Þá var þyrlan búin björgunarspili sem gat híft tvo menn í senn og auk þess með flotholt til að lenda á sjó eða í djúpum snjó. Þyrlunni hlekktist á eftir aðeins þrjú ár í þjónustu Landhelgisgæslunnar því í október 1975 brotlenti hún í Skálafelli eftir að öxull í stélskrúfunni hafði brotnað. Engan sakaði.

Árið 1973 keypti Gæslan tvær litlar þyrlur af gerðinni Bell, TF-HUG og TF-MUN. Stærðar sinnar vegna voru bundnar vonir við að þær gætu reynst vel til að lenda á palli varðskipanna. Þyrlurnar ollu hins vegar miklum vonbrigðum, eftir röð óhappa var hætt að nota þær í desember 1974.

Í stað þyrlunnar sem brotlenti í Skálafelli var ný þyrla keypt árið 1976. Hún var af gerðinni Sikorsky S-76 og skráð TF-RAN. Þyrlan var sérhönnuð til landhelgisgæslu og með öflugan lyftibúnað til björgunarstarfa. 8. nóvember 1983 varð hins vegar sá hörmulegi atburður að TF-RAN fórst í æfingaflugi í Jökulfjörðum og með henni fjórir starfsmenn Landhelgisgæslunnar. Þetta er mannskæðasta slys sem orðið hefur í sögu Gæslunnar.

Á tímamótum

Um miðjan níunda áratuginn stóð Landhelgisgæslan á erfiðum tímamótum. Eftir slysið í Jökulfjörðum var alvarlega rætt um að hætta alfarið þyrlurekstri og láta í staðinn varnarliðið alfarið um leit og björgun með þyrlum. Sem betur fer var horfið frá þeim áformum og í staðinn ákveðið að setja enn meiri kraft í þennan þátt starfseminnar. Það var ekki síst fyrirstilli sjálfra starfsmanna stofnunarinnar að ákveðið var að halda þyrlurekstrinum áfram. 

1985 kom hingað til lands Dauphin II-þyrla sem fékk einkennisstafina TF-SIF. Þessi þyrla var í þjónustu stofnunarinnar í rúma tvo áratugi uns hún lenti í sjónum við Straumsvík sumarið 2007. Áhöfn TF-SIF vann mörg frækin björgunarafrek, má þar til dæmis nefna þegar áhöfn Barðans GK, alls níu manns var bjargað við mjög erfiðar aðstæður undan Hólahólum á Snæfellsnesi í mars 1987. TF-SIF er nú í Flugsafni Íslands á Akureyri, eins og raunar Fokker-flugvélin TF-SYN.

Árið 1995 urðu svo enn ein þáttaskilin í flugrekstrarins þegar Landhelgisgæslan keypti öfluga björgunarþyrlu af gerðinni Aerospatiale Super Puma AS-332L1. Þessi þyrla, sem fékk einkennisstafina TF-LIF, var bæði stærri og öflugri en þær þyrlur sem Gæslan hafði áður haft yfir að ráða og búinn tækjum til leitar og björgunar við erfiðari aðstæður en hinar þyrlurnar réðu við. Óhætt er að segja að þessi þyrla hafi strax sannað gildi sitt, til dæmis í mars 1997 þegar áhöfn TF-LIF bjargaði alls 39 manns í þremur sjósköðum á á sex dögum.

Það var svo skarð fyrir skildi þegar varnarliðið hætti starfsemi sinni á Íslandi haustið 2006 því þá hurfu héðan öflugar þyrlur sem í áranna rás höfðu bjargað ótal mannslífum. Ljóst varð að styrkja þyrfti þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og árið 2007 var því leigð hingað til lands önnur Super Puma þyrla, TF-GNA. Þriðja Super Puma þyrlan bættist svo við 2012, TF-SYN. Rétt eins og TF-GNA er hún líka leiguþyrla.

Á árunum 2019-2021 var björgunarþyrlufloti Landhelgisgæslunnar endurnýjaður og leiguþyrlunum þremur skipt út fyrir fullkomnari leiguþyrlur af gerðinni Airbus Super Puma H225 sem fengu einkennisstafina TF-EIR, TF-GRO og TF-GNA. Hin sögufræga TF-LIF var tekin úr rekstri gert er ráð fyrir að hún verði seld fyrir árslok 2022.

Þessar þrjár þyrlur eru nú í rekstri hjá Landhelgisgæslunni og er útlit fyrir að svo verði fram á fyrri hluta næsta áratugar. Þá er gert ráð fyrir að Landhelgisgæslan fái þrjár nýjar leitar- og björgunarþyrlur sem eiga að tryggja öryggi sjófarenda og fólks á landi hér eftir sem hingað til. 

Heimild: Landhelgisgæsla Íslands: Svipmyndir úr 70 ára sögu.