Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar annaðist útkall vegna slasaðs skipverja

7. nóvember, 2024

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar sótti skipverja sem slasaðist á hendi við vinnu um borð í fiskiskipi sem var við veiðar norður af Siglufirði í gærkvöld.

7.11.2024 Kl: 9:41

Þyrlusveit
Landhelgisgæslunnar sótti skipverja sem slasaðist á hendi við vinnu um borð í
fiskiskipi sem var við veiðar norður af Siglufirði í gærkvöld. Áhöfn skipsins
hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar, tilkynnti um atvikið og
sigldi í átt að Siglufirði. Við nánara mat á ástandi mannsins, og þar sem löng
sigling var til Siglufjarðar og veðurspá slæm, var ákveðið að sækja hann með
þyrlu.

Þyrla
Landhelgisgæslunnar tók á loft frá Reykjavík um klukkan 19:30 og var komin að
skipinu einni og hálfri klukkustund síðar en þá var skipið statt um 60 sjómílur
norður af Siglufirði. Vel gekk að hífa skipverjann um borð í þyrluna.

Þyrlan
lenti á Reykjavíkurflugvelli um kl. 23 og var maðurinn fluttur með sjúkrabíl á
Landspítalann.