TF-GNÁ flutti tvo á sjúkrahús eftir flugslys í Kinnarfjöllum

2. júní, 2018

Lögreglan á Norðurlandi eystra og Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins.

TF-GNÁ, þyrla Landhelgisgæslunnar, var kölluð út á tíunda tímanum í gærkvöldi eftir að stjórnstöð Gæslunnar barst tilkynning um flugslys í Kinnarfjöllum. Tveir voru um borð. Önnur flugvél varí grenndinni og flugmaður hennar tilkynnti stjórnstöðinni að fólkið væri sjálft komið út úr flugvélinni og væri óhult. Þyrla Landhelgisgæslunnar tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli klukkan 21:45 og með í för var fulltrúi frá Rannsóknarnefnd samgönguslysa.

Þyrlan lenti á slysstaðnum laust fyrir klukkan ellefu en skömmu áður hafði vélsleðahópur á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar komist á staðinn. Fólkið var flutt með þyrlunni á Sjúkrahúsið á Akureyri en fulltrúi Rannsóknarnefndar samgönguslysa varð eftir í Kinnarfjöllum. Þyrlan flutti svo lögreglumenn frá Akureyri á slysstaðinn auk þess sem áhöfn þyrlunnar aðstoðaði rannsakendur á staðnum fram eftir nóttu. Aðstæður voru góðar, heiðskírt en kalt. Þyrlan lenti svo aftur í Reykjavík klukkan þrjú í nótt. Lögreglan á Norðurlandi eystra og Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins.