Nýr mælingabúnaður fyrir Baldur

18. janúar, 2019

Georg Kr. Lárusson, forstjóri, og Jón Tryggvi Helgason undirrituðu samning þess efnis.

18.1.2019 Kl: 15:39

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, og Jón
Tryggvi Helgason, framkvæmdastjóri ÍSMAR, undirrituðu á dögunum samning um kaup
Landhelgisgæslunnar á nýjum mælingabúnaði fyrir sjómælingaskipið Baldur.

Búnaðurinn sem um ræðir er annars vegar fjölgeislamælir af
gerðinni Teledyne Reson SeaBat T50 sem ætlaður er til dýptarmælinga fyrir
sjókortagerð og hins vegar jarðlagamælir af gerðinni Innomar SES-2000 sem
ætlaður er til greiningar á jarðlögum hafsbotnsins.

Að undangengnu útboði Ríkiskaupa var gengið til samninga við
ÍSMAR sem sérhæfir sig í sölu tækjabúnaðar til land- og sjómælinga. Stefnt er
að því að nýju mælarnir verði tilbúnir til notkunar um borð í Baldri í lok
febrúar.

Nýi fjölgeislamælirinn leysir af hólmi eldri mæli sem settur
var undir Baldur árið 2005. Mælirinn er af nýrri kynslóð tækja sem er bæði
nákvæmari og betri. Hann nær niður á mun meira dýpi en sá gamli og heldur fullri
þekjuvídd niður á meira dýpi. Afköst verða því meiri í dýpra vatni. Þá hefur
nýi mælirinn mjög nákvæma upplausn og eru möguleikar til að finna og greina
hluti á hafsbotni því margfalt betri. Það gegnir veigamiklu hlutverki við hefðbundnar
dýptarmælingar en ekki síður við leit á hafsbotni.

Jarðlagamælir er hins vegar nýr búnaður um borð í Baldri og
er hann keyptur vegna aðkomu Landhelgisgæslunnar að átaksverkefni atvinnuvega-
og nýsköpunarráðuneytisins um kortlagningu hafsbotnsins næstu 10-15 ár í
samstarfi við Hafrannsóknarstofnun. Með jarðlagamæli er m.a. hægt að mæla þykkt
setlaga á hafsbotni og eru það upplýsingar sem nýtast m.a. jarðvísindamönnum.

IMG_7205Samningurinn undirritaðurSjómælingaskipið Baldur