Áhafnir varðskips, þyrlu og björgunarskips kallaðar út.
9.5.2022 Kl: 20:06Mikill viðbúnaður var hjá Landhelgisgæslunni og Slysavarnafélaginu Landsbjörg á áttunda tímanum í kvöld vegna harðbotna slöngubáts sem tók niðri við eyjuna Vigur í Ísafjarðardjúpi. Báturinn varð aflvana í kjölfarið og rak stjórnlaust í átt að klettum suður af eyjunni, rétt utan við mynni Hestfjarðar. Áhöfnin á varðskipinu Þór, þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og áhöfn björgunarskipsins Gísla Jóns voru þegar í stað kallaðar út á mesta forgangi. Þá voru skip og bátar í grenndinni einnig beðin um að halda á staðinn. Sex voru um borð í bátnum og voru aðstæður í Ísafjarðardjúpi krefjandi, hvassviðri og kröpp alda. Farþegabátur sem staddur var í Djúpinu var fyrstur á vettvang, náði að koma taug yfir í slöngubátinn og dró hann í höfn laust fyrir klukkan átta í kvöld.