Gera ráð fyrir að næstu daga geti áhlaðandi vegna ölduhæðar og lækkandi loftþrýstings aukið sjávarhæð umfram það sem sjávarfallaútreikningar gefa til kynna.
Slæm veðurspá er í kortunum næstu daga en Veðurstofan hefur gefið út veðurviðvaranir fyrir landið auk þess sem stormviðvaranir eru í gildi fyrir svo til öll spásvæði til sjávar.
Stórstreymi er á morgun, föstudag, og vegna slæmrar veðurspár má gera ráð fyrir að næstu daga geti áhlaðandi vegna ölduhæðar og lækkandi loftþrýstings aukið sjávarhæð umfram það sem sjávarfallaútreikningar gefa til kynna.
Landhelgisgæslan hvetur því til aðgæslu við sjávarsíðuna og á hafinu og að hugað verði að skipum og bátum í höfnum.
Meðfylgjandi kort sýnir vindaspá Veðurstofunnar fyrir mið og djúp sem gildir kl 0600 laugardaginn 1. febrúar nk.