Samvinna áhafnar og íbúa á svæðinu var til fyrirmyndar
12.10.2021 Kl: 17:53
Áhöfnin á varðskipinu Þór dró um fimmtíu grindhvalshræ úr
fjörunni í Melavík á Ströndum um borð í varðskipið Þór í dag. Grindhvalina rak
á land í Árneshreppi á Ströndum fyrr í mánuðinum. Hræin voru dregin með léttbátum
varðskipsins og hífð með krana um borð í Þór.
Íbúar af bæjum í nágrenninu létu sitt ekki eftir liggja og
léttu áhöfninni á varðskipinu lífið með því að draga hvalina nær flæðarmálinu
með dráttarvél. Samvinna áhafnarinnar og íbúa svæðisins gekk afar vel.
Varðskipið var komið í Melavík um klukkan tíu í morgun og áhöfnin
hófst þegar handa við að draga hræin úr fjörunni þegar í þangað var komið.
Síðustu dýrin voru dregin úr fjörum við Árnes og litlu Ávík á sjötta tímanum. Varðskipið kemur til með að sigla með hræin út fyrir sjávarfallsstrauma
þar sem þeim verður sleppt í hafið.
Páll Geirdal, skipherra á varðskipinu Þór, segir að
verkefnið hafi gengið vonum framar.
„Þetta er búið að ganga afskaplega vel og það sem stóð upp
úr í dag var samvinna fólksins hér á svæðinu og áhafnarinnar á Þór. Hún var algjörlega
til fyrirmyndar. “ Segir Páll.
Síðustu hræin voru hífð um borð á sjötta tímanum í kvöld.
Hræin voru dregin með léttbátum varðskipsins og hífð um borð með krana.
Grindhvalshræin um borð í varðskipinu Þór.
Mikil og góð samvinna var milli áhafnarinnar á Þór og íbúa á svæðinu.
Verkefnið gekk vonum framar.
Verkið hófst um klukkan tíu í morgun og lauk um kvöldmatarleytið.