Aðstæður á vettvangi voru krefjandi.
5.10.2021 Kl: 10:09
Fjórir skipverjar á skútu sem strandaði við Æðey í Ísafjarðardjúpi voru hífðir um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar.Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst tilkynning um strandið laust eftir miðnætti.
Áhöfnin á TF-GRO, þyrlu Landhelgisgæslunnar, var þegar í stað kölluð út sem og sjóbjörgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Vestfjörðum. Stjórnstöð Gæslunnar óskaði sömuleiðis eftir því að áhöfn rannsóknarskipsins Bjarna Sæmundssonar héldi á svæðið en það var statt í Ísafjarðardjúpi. Enginn leki kom að skútunni við strandið, veðrið var ekki gott en þó fór ágætlega um skipverjana fjóra á meðan beðið var eftir aðstoð.
Rannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson og björgunarskipið Kobbi Láka voru fyrst á vettvang en komust ekki að skútunni sökum myrkurs, veðurs og grynninga. Af þeim sökum var ákveðið að hífa skipverjana fjóra um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar sem kom á staðinn laust fyrir klukkan tvö í nótt. Töluverður vindur var í Ísafjarðardjúpi og mastur skútunnar gerði hífingarnar sömuleiðis krefjandi.
Klukkan 2:15 voru allir skipverjarnir, þrír Englendingar og einn Íslendingur, komnir um borð í TF-GRO. Þeim var flogið til Ísafjarðar til aðhlynningar. Sjómælingaskipið Baldur var kallað út til að aðstoða við að koma skútunni aftur á flot en það var við mælingar í grenndinni.
Skúta strandar við Æðey Þegar komið var að skútunni í morgun var hún komin aftur á flot. Hún gengur nú fyrir eigin vélarafli og siglir til Ísafjarðar í fylgd sjómælingaskipsins Baldurs og björgunarskipsins Kobba Láka.
Kobbi Láka og skútan Integrity í morgun á siglingu.