Vel heppnuð æfing og fræðasla á Sauðárkróki.
13.12.2023 Kl: 10:40
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar æfir reglulega með björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar víða um land. Á æfingunum gefst tækifæri til að stilla saman strengi, fræðast um verkefni og vinnubrögð sveitanna auk þess sem þyrlusveitinni gefst mikilvægt tækifæri til að fara yfir hvernig móttöku þyrlu er háttað og réttu handtökin við hífingar, svo fátt eitt sé nefnt.
Á dögunum æfði þyrlusveit Landhelgisgæslunnar með björgunarsveitinni Skagfirðingasveit og flugbjörgunarsveitinni í Varmahlíð. Áhöfnin á TF-EIR lenti á Sauðárkróki þar sem fræðsla fór fram áður en æfingin sjálf gat hafist.
Til að byrja með var tekin hífing þar sem dúkka var sett í börur og hífð um borð í þyrluna. Að því búnu tók þyrlan einn hring og í kjölfarið voru þrettán liðsmenn björgunarsveitarinnar hífðir um borð í þyrluna á mismunandi stöðum. Einnig gafst gott tækifæri til að æfa tengilínuvinnu samhliða hífingunum. Að æfingu lokinni var boðið upp á kaffi þar sem farið var yfir æfinguna.
Landhelgisgæslan þakkar björgunarsveitinni Skagfirðingasveit og flugbjörgunarsveitinni í Varmahlíð kærlega fyrir góðar móttökur og vel heppnaða æfingu.
Um borð í þyrlunni.
Þrettán björgunarsveitarmenn voru hífðir um borð í þyrluna.
Fræðsla fór fram áður en æfingin sjálf gat hafist.
Júlíus Ævarsson, spilmaður, í hurðinni.
Læknir þyrlusveitarinnar sígur úr þyrlunni.