Kafbátarleitaræfing Atlanthafsbandalagsins, Dynamic Mongoose, hófst í gær. Meginmarkmið æfingarinnar er að efla getu og samhæfingu þátttökuríkjanna við kafbátaeftirlit, yfirborðsvarnir og sameiginleg viðbrögð við aðsteðjandi ógnum. Ísland er gistiríki æfingarinnar annað hvort ár til skiptis við Noreg og gegnir því hlutverki í ár. Æfingin fer aðallega fram á og við GIUK hliðið (e. Greenland-Iceland-United Kingdom Gap). […]
Kafbátarleitaræfing Atlanthafsbandalagsins, Dynamic Mongoose, hófst í gær.
Meginmarkmið æfingarinnar er að efla getu og samhæfingu þátttökuríkjanna við kafbátaeftirlit, yfirborðsvarnir og sameiginleg viðbrögð við aðsteðjandi ógnum.
Ísland er gistiríki æfingarinnar annað hvort ár til skiptis við Noreg og gegnir því hlutverki í ár. Æfingin fer aðallega fram á og við GIUK hliðið (e. Greenland-Iceland-United Kingdom Gap). Hún byrjar við suðvesturströnd Íslands og færist svo austur á hafsvæðið á milli Íslands og Noregs.
Í gær fór fyrsti hluti æfingarinnar fram á Faxaflóa og tóku herskip frá Þýskalandi, Hollandi, Póllandi þátt ásamt varðskipinu Freyju og þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. Díselknúinn þýskur kafbátur tók einnig þátt og fóru hífingar m.a. fram af kafbátnum.
Þá taka kafbátaeftirlitsvélar einnig þátt frá öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, auk þess sem eftirlitsflugvélin TF-SIF tekur þátt í hluta æfingarinnar. Landhelgisgæsla Íslands hefur annast skipulagningu æfingarinnar í samstarfi við varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og flotastjórn Atlantshafsbandalagsins í Northwood í Bretlandi
Starfsfólk varnarmálasviðs Landhelgisgæslunnar á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli gegnir mikilvægu hlutverki við æfinguna og sér meðal annars um flugeftirlit og -tilkynningar, fjarskipti, upplýsingamiðlun, stuðning við allar einingar og fleira ásamt því að veita hefðbundinn gistiríkjastuðning. Þá voru tveir starfsmenn varnarmálasviðs sendir til flotaherstjórnar Atlantshafsbandalagsins (Marcom) í Bretlandi á meðan á æfingunni stendur.
Æfingunni lýkur þann 9. maí.
Gunnar Flóvenz tók meðfylgjandi myndir.