Landhelgisgæslan og Vegagerðin semja um rekstur Vaktstöðvar siglinga

28. mars, 2025

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, undirrituðu í vikunni samning um rekstur Landhelgisgæslunnar á Vaktstöð siglinga. Samningurinn er til tíu ára og samkvæmt honum tekur Landhelgisgæslan að sér að stýra og manna vaktstöð siglinga og framkvæma þau verkefni sem vaktstöð siglinga er falið með lögum og reglugerðum. Vaktstöð siglinga starfar allan […]

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, undirrituðu í vikunni samning um rekstur Landhelgisgæslunnar á Vaktstöð siglinga. Samningurinn er til tíu ára og samkvæmt honum tekur Landhelgisgæslan að sér að stýra og manna vaktstöð siglinga og framkvæma þau verkefni sem vaktstöð siglinga er falið með lögum og reglugerðum. Vaktstöð siglinga starfar allan sólarhringinn alla daga ársins í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í Skógarhlíð. Breytingin sem felst í umræddum samningi er sú að Vegagerðin semur nú beint við Landhelgisgæslu Íslands um rekstur Vaktstöðvarinnar en Neyðarlínan bar áður ábyrgð á rekstrinum og fól Landhelgisgæslunni framkvæmdina. Tæknilegur hluti Vaktstöðvarinnar er áfram í höndum Neyðarlínu.

Markmið samningsins er að uppfylla ákvæði laga um vaktstöð siglinga nr. 41/2003 en markmið laganna er að tryggja öryggi og skilvirkni siglinga í íslenskri efnahagslögsögu, eftirliti með umferð skipa og upplýsingaskiptum í þágu siglingaöryggis, öryggi skipa, farþega og áhafna og siglingavernd. Vegagerðin er ábyrg fyrir starfsemi Vaktstöðvarinnar en framkvæmdin er sem áður segir á forræði Landhelgisgæslu Íslands samkvæmt samningnum.

Meðal helstu verkefna Vaktstöðvar siglinga er vöktun og eftirlit sjálfvirks tilkynningakerfis skipa (STK), þ.m.t. sjálfvirks alþjóðlegs auðkenningarkerfis skipa (AIS), móttaka og miðlun tilkynninga frá skipum sem flytja hættulegan og/eða mengandi varning, móttaka og miðlun neyðarkalla til viðeigandi aðila auk tilkynninga um óhöpp eða slys á sjó.