Háskólinn í Reykjavík og Landhelgisgæsla Íslands hafa ákveðið að ganga til samstarfs um rannsókn sem miðar að því að efla frammistöðu starfsfólks Landhelgisgæslunnar í aðgerðum og á æfingum. Auglýst verður eftir doktorsnema til að stunda umrædda rannsókn (efling líkamlegrar og hugrænnar frammistöðu starfsfólks Landhelgisgæslu Íslands), sem hefur meðal annars það markmið að þróa aðferðir til […]
Háskólinn í Reykjavík og Landhelgisgæsla Íslands hafa ákveðið að ganga til samstarfs um rannsókn sem miðar að því að efla frammistöðu starfsfólks Landhelgisgæslunnar í aðgerðum og á æfingum.
Auglýst verður eftir doktorsnema til að stunda umrædda rannsókn (efling líkamlegrar og hugrænnar frammistöðu starfsfólks Landhelgisgæslu Íslands), sem hefur meðal annars það markmið að þróa aðferðir til að hámarka árangur, bæta heilsu og draga úr líkum á meiðslum.
Verkefnið verður á forræði rannsóknarsetursins PAPESH (Physical Activity, Physical Education, Health and Sport) sem er hluti af íþróttafræðideild HR og vinnur að því að bæta rannsóknir á sviði íþróttavísinda og beita þeim í þágu íslensks samfélags.
Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, segir sérlega þýðingarmikið að fá tækifæri til að vinna með sérfræðingum Háskólans í Reykjavík með það að markmiði að efla starfsemina.
„Samstarf Landhelgisgæslunnar og Háskólans í Reykjavík er merkilegur áfangi og mikið framfaraskref. Það er ánægjulegt að taka þátt í rannsókn sem þessari, sem ætlað er að stuðla að bættu heilsufari og frammistöðu starfsfólks sem ríkar kröfur eru gerðar til og starfa við ákaflega krefjandi aðstæður. Fyrir Landhelgisgæsluna er dýrmætt að fá aðgang að þeirri miklu þekkingu sem Háskólinn í Reykjavík býr yfir á þessu sviði, og við hlökkum til samstarfsins.“
Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík:
„Við í HR erum afar ánægð með þetta samstarf við Landhelgisgæsluna. Við erum sífellt að leita leiða til að efla tengsl okkar við hinar ýmsu stofnanir samfélagsins og atvinnulíf og þetta er liður í því. Þá viljum við jafnframt að rannsóknir okkar hafi víðtæka skírskotun og áhrif, og gagnist samfélaginu sem HR er hluti af, líkt og við vonumst til að þessi rannsókn geri.“
Doktorsneminn sem vinnur að verkefninu mun njóta handleiðslu þverfaglegs teymis með sérþekkingu á íþróttavísindum, lífeðlisfræði, færniþjálfun og sálfræði.
Hafrún Kristjánsdóttir deildarforseti íþróttafræðideildar:
„Við í íþróttafræðideild HR erum spennt fyrir samstarfinu við Gæsluna. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar vinna mikilvæg störf við mjög krefjandi aðstæður sem reyna bæði á líkamlegan og andlegan styrk. Við erum vön að hjálpa íþróttamönnum að hámarka frammistöðu, heilsu og vellíðan og nú munum við að hluta nota sömu aðferðir í vinnu með starfsmönnum Gæslunnar. Það verður þverfaglegur og alþjóðlegur hópur sem mun koma að samstarfinu undir stjórn Hugh Fullagar prófessors sem hefur víðtæka reynslu af að vinna með viðbragðsaðilum og séraðgerðasveitum um heim allan.“
Dokorsnemastaða við verkefnið er nú laus til umsóknar. Hér má sjá frekari upplýsingar: https://jobs.50skills.com/ru/is/34480