Viðburðaríkt ár að baki.
26.12.2023 Kl: 10:39
Þótt ótrúlegt megi virðast er árið 2023 nánast á enda og nýtt ár handan við hornið. Árið sem nú er að líða hefur verið tíðindaríkt í starfi Landhelgisgæslunnar og verkefnin sem starfsfólk hefur fengist við verið bæði fjölbreytt og og krefjandi.
Met var sett í fjölda þyrluútkalla. Í fyrsta sinn í sögunni var þyrlusveit Landhelgisgæslunnar kölluð út í yfir 300 skipti. Nákvæmur fjöldi útkalla liggur fyrir snemma á nýju ári.
Séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar annaðist þjálfun úkraínskra sprengjusérfræðinga í samstarfi við hinar Norðurlandaþjóðirnar. Þjálfunin fór fram í Litháen.
Áhafnir beggja varðskipa höfðu í nógu að snúast og úthald sjómælingaskipsins Baldurs hefur aldrei verið lengra en því lauk formlega í desember.
Á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli hefur verið margt um manninn á árinu og þrjár þjóðir annast loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins frá Keflavíkurflugvelli.
Á þriðja degi ársins voru tíu fluttir með loftförum Landhelgisgæslunnar vegna tveggja umferðarslysa, á Suðurlandsvegi og í nágrenni Hafnar í Hornafirði. Sex slasaðir voru fluttir með tveimur þyrlum Landhelgisgæslunnar og fjórir með eftirlitsflugvélinni TF-SIF.
Í janúar voru góða aðstæður til æfinga fyrir þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. Þessar fallegu myndir voru teknar af Birgi Steinari Birgissyni á æfingu sveitarinnar í blíðskaparveðri
Gísli Valur Arnarsson, sigmaður þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar, á fjallaæfingu. TF-GNA, þyrla Landhelgisgæslunnar.
Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins hófst í upphafi ársins með komu flugsveitar norska flughersins. Þetta var í sjöunda sinn sem Norðmenn komu hingað til lands vegna slíkrar gæslu.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var um borð í varðskipinu Freyju sem kallað var út vegna togarans Hrafns Sveinbjarnarsonar sem varð aflvana út af Straumnesi. Til stóð að forsetinn og áhöfn varðskipsins yrðu viðstödd minningarathöfn vegna krapaflóðanna sem féllu á Patreksfjörð árið 1983 en þurftu að halda í útkallið áður en þangað var komið. Forsetinn varð fljótt sjóaður og útkallið gekk vel.
Áhöfn sjómælingaskipsins Baldurs losaði dauðan hval á Stakksfirði sem flækst hafði í botnföstu tógi sem talið er líklegt að sé hluti af kræklingaræktunarbúnaði í lok janúar.
Hræið var orðið uppblásið og gat valdið hættu fyrir sjófarendur.
Hópur íslenskra sérfræðinga á sviði aðgerðastjórnunar í rústabjörgun á hamfarasvæðum lagði af stað með flugvél Icelandair til jarðskjálftasvæðanna í Tyrklandi í upphafi febrúar. Tveir liðsmenn séraðgerðasveitar Landhelgisgæslunnar voru með í för en báðir hafa þeir umtalsverða reynslu af björgunarstörfum.
Landhelgisgæslan nýtur mest trausts landsmanna en samkvæmt niðurstöðum Þjóðarpúls Gallup bera 90% landsmanna mikið traust til Landhelgisgæslunnar. Þetta var þrettánda árið í röð sem Landhelgisgæslan mælist með mest traust íslenskra stofnana eða allt frá því að Landhelgisgæslan var tekin fyrst inn í mælingar Gallup.
Um miðjan mánuðinn fór áhöfnin á varðskipinu Þór í eftirlit í loðnuskip austur af landinu. Eftirlitið gekk vel en það fór að stærstum hluta fram að næturlagi vegna þess að veiðin hjá loðnuskipunum var betri á þeim tíma.Alls fór fram eftirlit í tuttugu og þremur skipum. Ferðin var sömuleiðis nýtt til að skipta um vindmæli í Papey.
Áhöfnin á TF-SIF flaug með hóp vísindamanna að Öskju. Hér má sjá nokkrar skemmtilegar myndir sem Árni Sæberg, ljósmyndari Morgunblaðsins, tók í ferðinni.
Áhöfnin á varðskipinu Þór æfir reglulega viðbrögð við eldsvoða sem upp kann að koma um borð í skipum á hafinu umhverfis landið.
Í febrúar var haldin reykköfunaræfing um borð í fiskiskipinu Jóni Kjartanssyni á Reyðarfirði. Æfingin gekk sérlega vel og Sævar Már Magnússon, bátsmaður á varðskipinu Þór, útbjó þetta áhugaverða myndband af æfingunni.
Sjómælingaskipið Baldur var tekið í slipp hjá Skipasmíðastöð Njarðvíkur 17. febrúar til reglubundins eftirlits í samræmi við skilmála flokkunarfélagsins Bureau Veritas.
Áhöfnin á varðskipinu Þór æfði viðbrögð við því ef maður fellur fyrir borð. Æfingin fór þannig fram að einungis fjórir úr áhöfn skipsins vissu af henni fyrirfram, þeir tveir sem létu sig falla í sjóinn, skipherra og háseti sem tilkynnti að menn hefðu fallið fyrir borð.
Á meðfylgjandi myndbandi má sjá hvernig varðskipið fjarlægist mennina sem eru í sjónum hratt en handtök áhafnarinnar á Þór voru snör þegar henni var tilkynnt að tveir væru í sjónum og voru þeir komnir um borð í léttbát varðskipsins rúmum fjórum mínútum eftir að hafa fallið í sjóinn.
Landhelgisgæslan, samtök útgerða skemmtiferðaskipa á norðurslóðum (AECO) og leitar og björgunarmiðstöðin í Norður-Noregi, efndu til ráðstefnu og viðbragðsæfingar í Reykjanesbæ þar sem björgunarmál tengd siglingum skemmtiferðaskipa á norðurslóðum voru til umfjöllunar.
Þjálfun úkraínskra hermanna á sviði sprengjuleitar og sprengjueyðingar hófst í Litáen í mars. Um er að ræða samstarfsverkefni Norðurlandanna og Litáen og annast litáískir, norskir, sænskir og íslenskir sprengjusérfræðingar framkvæmdina. Séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar hefur annast þjálfunina ásamt sprengjusérfræðingum hinna Norðurlandanna.
Varðskipið Freyja á Siglingu úti fyrir Stafnesi í mars.
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út í lok mánaðarins til að flytja björgunarsveitarmenn á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar og leitarhunda til Egilsstaða vegna snjóflóðahættu á Austfjörðum.
Floti tundurduflaslæðara á vegum Atlantshafsbandalagsins kom til landsins. Skipin lögðust að bryggju í Reykjavík og höfðu aðsetur við Skarfabakka.
Áhöfnin á TF-GNA, þyrlu Landhelgisgæslunnar var til taks á Akureyri eina helgi í mars. Viðbragðstími þyrlunnar verður umtalsvert styttri þaðan en frá Reykjavík ef sinna þarf útkalli á Norður-eða Austurlandi.
Varðskipið Þór kom með hina sögufrægu Maríu Júlíu til hafnar á Akureyri undir lok marsmánaðar.
Fjölskylda Jennýjar Lilju Gunnarsdóttur afhenti Landhelgisgæslunni tvö hjartastuðtæki að gjöf úr minningarsjóði Jennýjar Lilju. Jenný Lilja lést af slysförum í október 2015, aðeins þriggja ára gömul.
Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar urðu varir við að norskt línuskip væri á veiðum innan bannsvæðis í fiskveiðilögsögunni. Þetta var unnt að sjá í fjareftirlitskerfi Landhelgisgæslunnar.
Flutningaskipið Wilson Skaw strandaði í Húnaflóa í apríl. Áhöfnin á varðskipinu Freyju kom mengunarvarnargirðingu fyrir umhverfis skipið og færði farm þess til svo unnt væri að sigla skipinu til hafnar. Áhöfnin á Freyju lauk störfum í byrjun maí þegar búið var að færa farminn til. Færanlegir kranar á hliðum Freyju reyndust vel við verkið.
Í upphafi maí var mikið um að vera í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar þegar strandveiðar hófust. Í hádeginu á fyrsta degi voru um 700 skip í fjareftirliti stjórnstöðvarinnar.
Rúmlega hundrað þátttakendur tóku þátt í sjóbjörgunaræfingunni Faxa 23 þar sem fjöldabjörgun farþega frá hvalaskoðunarskipi var æfð úti fyrir Reykjavík. Viðbragðsaðilar og hvalaskoðunarfyrirtækið Elding stóðu að æfingunni.
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar annaðist fjölmörg sjúkraflug til Vestmannaeyja. Í nokkrum tilfellum var lent bæði á Hamrinum og á vegum þar sem hægt var að koma þyrlunni niður.
Fundur Norræna sjómælingaráðsins (Nordic Hydrographic Commission, NHC) fór fram í Álaborg. Á fundinum voru samþykktir ráðsins endurskoðaðar í samræmi við samþykktir Alþjóðasjómælingastofnunarinnar (IHO).
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar hélt sameiginlega æfingu með áhöfn hollenska herskipsins Van Amstel vestur af landinu. Van Amstel tilheyrir fastaflota Atlantshafsbandalagsins sem hafði viðkomu hér á landi.
TF-SIF, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, var kölluð fyrr til landsins úr verkefnum sínum fyrir Frontex, landamærastofnun Evrópu, vegna leiðtogafundarins sem haldinn var í maí. Áhöfn vélarinnar, þyrlusveit, varðskip og séraðgerðasveit önnuðust eftirlit og öryggisgæslu vegna fundarins.
Árlegar úthald sjómælingabátsins Baldurs hófst í maí. Baldur var í sumar við mælingar við Strandir og var áhersla lögð á endurmælingar í sjókort númer 52 sem nær frá Horni að Gjögri. Mælingar Baldurs stóðu óvenju lengi inn í veturinn en þeim lauk í desember.
Áhöfnin á varðskipinu Freyju aðstoðaði skipstjóra tveggja fiskibáta sem lentu í vandræðum þegar þeir voru á veiðum úti fyrir Rifi í lok maí. Annar báturinn varð vélarvana og þegar hinn ætlaði að veita honum aðstoð fékk sá tóg í skrúfuna. Farið var á léttbátum Freyju, bátarnir teknir í tog og farið með þá að bryggju á Rifi.
Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur þann 4. júní. Fjölmenni lagði leið sína í miðborg Reykjavíkur þar sem gestum bauðst að sigla með varðskipinu Freyju. Hátt í 1500 manns nýttu sér tækifærið og sigldu með varðskipinu frá Reykjavík.
Smábátur strandaði skammt innan við Arnarstapa í byrjun júní. Einn var um borð í bátnum. Hann hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og taldi ekki yfirvofandi hættu á ferðum en hæglætisveður var á svæðinu þegar báturinn strandaði.
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar annaðist nokkur útköll í skemmtiferðaskip á árinu. Eitt slíkt var farið í júní en þá var þyrlusveit Landhelgisgæslunnar kölluð út á mesta forgangi vegna bráðra veikinda um borð í skemmtiferðaskipi sem statt var suður af Vík í Mýrdal.
Áhöfnin á varðskipinu Freyju vann að viðhaldi vita umhverfis landið í samstarfi við Vegagerðina. Áratugum saman hafa varðskip siglt meðfram ströndum landsins vegna eftirlits með ljósvitum, skerjavitum, sjómerkjum og ljósduflum sem ekki er hægt að komast í frá landi.
Skipstjóri fiskibáts sendi frá sér neyðarkall eftir að leki kom að bátnum sem var á veiðum í mynni Arnarfjarðar. Þyrla Landhelgisgæslunnar var þegar í stað kölluð út á fyrsta forgangi sem og björgunarskip á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar frá Patreksfirði. Fiskibátar sem staddir voru skammt frá vettvangi voru snöggir á staðinn. Áhöfn eins þeirra kom dælum um borð sem höfðu undan og festu bátinn utan á síðuna. Neyðarástandi var þá aflýst og þyrla Landhelgisgæslunnar afturkölluð.
Jesmond Cutajar, sendiherra Möltu gagnvart Íslandi, heimsótti Landhelgisgæsluna í Skógarhlíð. Cutajar fékk kynningu á starfsemi Landhelgisgæslunnar og skoðaði sig um í stjórnstöðinni í Skógarhlíð.
Um borð í varðskipinu Freyju er öflugur slökkvibúnaður sem er afar mikilvægur ef eldur kemur upp um borð í skipum. Þessi afkastamikli búnaður er reglulega prófaður og áhöfn Freyju þjálfuð í notkun hans.
Landhelgisgæslan gaf í út nýtt sjókort af Vestfjörðum sem nær yfir haf- og strandsvæðið frá Bjargtöngum að Stigahlíð í Ísafjarðardjúpi. Kortið er númer 45 og ber heitið Bjargtangar – Stigahlíð.
Sænska ríkisútvarpið heimsótti Landhelgisgæsluna á dögunum í þeim tilgangi að afla upplýsinga fyrir umfjöllun um stöðu íslands innan Atlantshafsbandalagsins og hvernig eftirliti umhverfis landið er háttað.Útvarpskonan Carina Holmberg ræddi við Guðríði Margrét Kristjánsdóttur, yfirlögfræðing Landhelgisgæslunnar, um borð í varðskipinu Þór.
Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, og Ögmundur Haukur Knútsson, Fiskistofustjóri, undirrituðu samkomulag um samvinnu og samstarf í tengslum við fiskveiðieftirlit.
Harðduglegur 20 manna hópur sjálfboðaliða safnaði rusli í 24 ,,saltpoka“ á Bolungarvík á Ströndum um helgina. Ruslið var flutt frá Bolungarvík til Ísafjarðar með varðskipinu Freyju.
Landhelgisgæslan og bandaríski sjóherinn æfðu saman leit og björgun á Húnaflóa. Varðskipið Freyja og eftirlitsflugvélin TF-SIF tóku tóku þátt í æfingunni fyrir hönd Landhelgisgæslunnar og áhöfn P8 flugvélar fyrir hönd sjóhersins.
Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, tók á móti Guðrúnu Hafsteinsdóttur, dómsmálaráðherra, og samstarfsfólki í nýju flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli. Guðrún kynnti sér fjölbreytta starfsemi Landhelgisgæslunnar og helstu verkefni stofnunarinnar.
Flugsveit þýska flughersins kom til æfinga og til að kynna sér aðstæður hér á landi í lok júlí. Með sveitinni komu sex Eurofighter Typhoon orrustuþotur ásamt þrjátíu liðsmönnum.
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar annaðist fjölmörg þyrluútköll í júní, júlí og ágúst. Eina helgina í júlí annaðist sveitin sex útköll. Í júlí varð einnig mannskætt flugslys á Austurlandi. Þrír létust í slysinu.
Í eftirlitsflugi áhafnarinnar á TF-GNA varð þyrlusveitin vör við radarsvar í ratsjá þyrlunnar þegar flogið var utan við Smiðjuvík á Vestfjörðum. Haldið var að merkinu sem var í 12 sjómílna fjarlægð og reyndist það vera ísjaki.
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var staðsett á Akureyri annars vegar og í Vestmannaeyjum hins vegar um verslunarmannahelgina og annaðist útköll þaðan. Þetta var gert til að stytta viðbragðstíma yfir þessa fjölmennu ferðahelgi. Sveitin var fjórum sinnum kölluð út yfir verslunarmannahelgina. Þyrlusveitin var jafnframt staðsett á Akureyri meðan á Fiskideginum mikla stóð og annaðist nokkur útköll frá Akureyri.
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar aðstoðaði vísindamenn við að flytja búnað og mannskap úr Surtsey í ágúst. Undanfarin ár hefur Landhelgisgæslan í samstarfi við Umhverfisstofnun aðstoðað Surtseyjarfara með ýmsu móti, t.d með að flytja þá ásamt búnaði til og frá eynni.
Sjónarhorn flugmannsins þegar lent var á Egilstaðaflugvelli í ágúst.
Í ágúst fór fram viðhaldsvinna í vitanum í Málmey í Skagafirði sem ekki var hægt að klára fyrr í sumar. Nauðsynlegt var að fá þyrlu til aðstoðar því flytja þurfti tvo þunga rafgeyma sem skipta þurfti um. Rafgeymarnir vógu um 270 kíló hvor. Þeim var lyft með þyrlunni frá varðskipinu yfir í Málmey og ónýtu rafgeymarnir fluttir aftur í Freyju. Þá fór einnig fram hefðbundið eftirlit á ljósbúnaði vitans.
Áhafnirnar á varðskipinu Freyju og björgunarskipinu Sigurvin héldu samæfingu á Siglufirði. Markmið æfingarinnar var meðal annars að láta reyna á dráttargetu Sigurvins og þar var ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur því Sigurvin var látinn taka varðskipið Freyju í tog. Æfingin gekk sérlega vel. Sigurvin dró varðskipið áfram á 1,2 hnúta ferð undir 60% álagi.
Áhöfnin á varðskipinu Freyju æfði leitar- og björgunaraðgerðir með áhöfn danska varðskipsins Hvidbjornen og færeyska varðskipsins Brimil, suðvestur af Færeyjum.
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Austurlandi björguðu pilti úr sjálfheldu á Kambfjalli inn af Fáskrúðsfirði. Pilturinn sat fastur á þverhníptri skoru í rúmlega 400 metra hæð.
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út í byrjun september vegna pilts í sjálfheldu í miklum bratta í Gleiðarhjalla fyrir ofan Ísafjörð. Björgunarsveitarfólk á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar var sömuleiðis kallað út og hélt upp í fjallið að drengnum. Hann var hífður um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Áhöfnin á TF-SIF, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, var kölluð út til að annast sjúkraflutning frá Akureyri til Gautaborgar vegna líffæraskipta. Með í för var einnig bráðatæknir frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. TF-SIF flaug fyrst frá Reykjavík til Akureyrar þar sem sjúklingurinn var sóttur og beint í kjölfarið var flogið til Gautaborgar.
Erlent flutningaskip tók niðri við Akurey þegar skipið var á leið frá Reykjavík. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar var þegar gert viðvart. Skipinu var beint til hafnar og Umhverfisstofnun gert viðvart.
Landhelgisgæsla Íslands í samstarfi við þátttakendur í ARCSRAR samstarfsverkefninu stóð fyrir áhugaverðri ráðstefnu á Hilton Reykjavík Nordica. Fyrirlesarar á ráðstefnunni voru margir af færustu sérfræðingum á sínu sviði en þeir komu úr röðum viðbragðsaðila, fræðasamfélagsins, skemmtiferðaskipaiðnaðarins og tæknifyrirtækja.
Varðskipið Þór lagðist að bryggju á Höfn í Hornafirði um miðjan september. Þetta var í fyrsta sinn sem varðskip Landhelgisgæslunnar kemur til Hafnar.
Varðskipið Þór tók franska farþegaskipið Polarfront í togi frá Grænlandi til Reykjavíkur. Leitað var til Landhelgisgæslunnar vegna farþegaskipsins sem var búið að vera vélbilað innst í Fönfirði, sem er inn af Scorespysundi á Grænlandi, í nokkra daga.Veður á svæðinu var með besta móti og skipið var við akkeri suður af eyjunni Röd. Vel gekk að koma taug á milli skipanna eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi. Ferðin til Reykjavíkur tók þrjá sólarhringa.
Landhelgisgæsla Íslands stóð fyrir hinni árlegu Northern Challenge sem er fjölþjóðleg æfing sprengjusérfræðinga. Um var að ræða alþjóðlega æfingu Atlantshafsbandalagsins sem séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar skipulagði. Um 400 þátttakendur frá 15 löndum tóku þátt að þessu sinni.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tók þátt í björgunaræfingu með áhöfninni á TF-GRO, þyrlu Landhelgisgæslunnar, við Bessastaði. Sigmaður þyrlunnar seig niður til forsetans sem var staddur í fjörunni yst á nesinu, klæddi forsetann í björgunarlykkju og hífði hann að því búnu um borð í þyrluna.
Þegar björgunaræfingunni var lokið fór fram fjöruhreinsun þar sem áhöfn þyrlunnar hífði tvö níðþung bíldekk úr fjörunni yst á nesinu en þau vógu samtals 400 kíló. Dekkjunum var krækt í þyrluna og flogið með þau að bílageymslu við Bessastaði. Þaðan voru þau flutt til förgunar.
Eftir að verkefnum þyrlusveitarinnar var lokið bauð forsetinn áhöfn þyrlunnar í kaffisamsæti á Bessastöðum.
Áhöfnin á varðskipinu Freyju lagði út öldumælidufl við Straumnes. Vel gekk að koma duflinu á sinn stað. Þegar verkinu var lokið heyrðist vel í því auk þess sem það sendi upplýsingar inn á vef Vegagerðarinnar. Meðfylgjandi myndband sem Guðmundur St. Valdimarsson tók sýnir hvernig vinna sem þessi fer fram.
Bandarísk flugsveit kom til landsins til að sinna loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins við Ísland. Flugsveitin kom til landsins frá Þýskalandi, með fjórar F-16 herþotur og 120 liðsmenn.
Sigurður Þorkell Árnason, fyrrverandi skipherra hjá Landhelgisgæslunni lést í október, 95 ára að aldri.
Varðskipin Þór og Freyja voru til taks úti fyrir Grindavík í nóvember vegna jarðhræringa úti fyrir Grindavík. Þá var þyrlusveit Landhelgisgæslunnar einnig í viðbragðsstöðu ásamt séraðgerðasveit, stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og aðgerðasviði.
Í nóvember voru fjörutíu ár liðin síðan TF-RAN, þyrla Landhelgisgæslunnar, fórst í Jökulfjörðum með allri áhöfn. Slysið varð skömmu eftir flugtak þyrlunnar frá varðskipinu Óðni undan Kvíum á Jökulfjörðum að kvöldi 8. nóvember 1983. Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar fór í sérstakt flug vestur í Jökulfirði þar sem þeirra sem fórust í þessu hörmulega slysi var minnst.
Jakob Ólafsson, flugstjóri hjá Landhelgisgæslunni, lauk farsælum ferli þegar hann lenti eftirlitsflugvélinni TF-SIF í síðasta sinn á flugvellinum í Catania í lok nóvember. Jakob flaug bæði þyrlum og flugvélum Landhelgisgæslunnar en síðustu ár hefur hann verið flugstjóri á eftirlitsflugvélinni TF-SIF. Hann var flugstjóri í fjölmörgum eftirminnilegum björgunarflugum á löngum og farsælum ferli.
Áhafnir varðskipanna Þórs og Brimils héldu sameiginlega æfingu í Þórshöfn í Færeyjum . Einn hluti æfingarinnar gekk út á að taka Brimil á síðu Þórs og færa það að bryggju.
Eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi gekk áhöfn Þórs vel að leggja Brimil að bryggju við góðar aðstæður í flutningahöfninni.
Eldgos hófst norður af Grindavík að kvöldi 18. desember. Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var þegar í stað kölluð út til að fljúga yfir svæðið með vísindamenn. Tilkomumikil sjón blasti við áhöfninni þegar á staðinn var komið. Löng sprunga hafði myndast og háir strókar stóðu upp í loftið. Þegar flogið var með vísindamenn á svæðið að morgni 21. desember var ljóst að enginn virkni var í eldgosinu.
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út þann 20. desember ásamt björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar til leitar á milli Keilis og Kistufells í kjölfar þess að flugmenn lítillar flugvélar komu auga á SOS neyðarljósmerki á svæðinu. Áhöfn þyrlunnar fann kaldan og hrakinn göngumann og hífði hann um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Í desember fór fram endurbætur á björgunarrými varðskipsins Þórs. Aðstaðan hefur verið aðlöguð að nútímanum og eftir breytingarnar er vinnuaðstaða til fyrirmyndar.
Áhöfn skipsins hefur annast endurbæturnar. Starfsfólki er umhugað um þau tæki og tól sem þar eru til umráða og á meðfylgjandi myndum má glögglega sjá að allt er gert til að þau verði ekki fyrir hnjaski. Við endurbæturnar var þess sérstaklega gætt að þessi mikilvægi búnaður yrði eins aðgengilegur og kostur er og vel færi um hann.
Fréttamenn á vegum BBC, CNN og Sky News fóru með þyrlusveit Landhelgisgæslunnar á æfingu í nágrenni við eldgosið á Reykjanesskaga. Kristín Jónsdóttir frá Veðurstofu Íslands fór einnig með í flugið og kannaði aðstæður á gossvæðinu. Þegar þyrlan kom á svæðið var ljóst að engin virkni væri lengur í eldgosinu. Fréttir miðlanna úr æfingarfluginu má sjá hér að neðan.
Frétt CNN: https://edition.cnn.com/…/iceland-volcano-helicopter…
Frétt Sky News: https://news.sky.com/…/iceland-you-can-make-out-the…
Frétt BBC: Iceland volcano: https://www.bbc.com/news/av/world-europe-67783952
Þann 22. desember var áhöfnin á varðskipinu Freyju kölluð út vegna snjóflóðahættu og slæmrar veðurspár á Vestfjörðum. Skipið var komið á Ísafjörð á Þorláksmessu og fékk góðar mótttökur.
Áhöfninni var meðal annars boðið til skötuveislu í Guðmundarbúð og náði sér í jólatré til að gera sjálft aðfangadagskvöld sem hátíðlegast. Á jóladag var óvissustigi aflýst á Vestfjörðum og þá var ákveðið að áhöfnin héldi aftur til heimahafnar á Siglufirði.
Landhelgisgæslan óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla, árs og friðar.