Viðvörun barst Landhelgisgæslunni vegna gruns um mengun.
14.12.2021 Kl: 14:47
Landhelgisgæslan stöðvaði för erlends flutningaskips sem var
á leið til hafnar í Reykjavík í gærmorgun í kjölfar þess að stjórnstöð
Landhelgisgæslunnar barst viðvörun frá EMSA, Siglingaöryggisstofnun Evrópu, sem
gaf til kynna að mengun kynni að stafa frá skipinu. Viðvörunin var byggð á
gervitunglamynd. Hún var þess eðlis að mikilvægt þótti að ganga úr skugga um að
skipið væri ekki enn að gefa frá sér mengun áður en að það kæmi of nálægt landi
þannig að olíumengaður sjór bærist ekki í fjörur. Þyrlusveit
Landhelgisgæslunnar var kölluð út sem og séraðgerðasveit LHG á varðbátnum Óðni.
Þá var Umhverfisstofnun og Samgöngustofu gert viðvart eins og áætlanir um bráðamengun
gera ráð fyrir.
Áhöfn varðbátsins Óðins, ásamt sérfræðingi
Umhverfisstofnunar, gengu úr skugga um að enginn olíuleki væri sjáanlegur frá
skipinu. Að því búnu var skipinu heimilt að halda til hafnar þar sem
hafnarríkiseftirlit Samgöngustofu tók á móti því til nánari skoðunar. Áhöfn
þyrlu Landhelgisgæslunnar kom auga á olíuflekki á siglingaleið skipsins, norður
og vestur af Garðskaga, og var varðbáturinn Óðinn sendur til þess að taka sýni
úr sjónum. Sýnin verða send til frekari greiningar erlendis á vegum
Umhverfisstofnunar.
Landhelgisgæslan fær nær daglega sendar gervitunglamyndir af
hafsvæðinu í kringum Ísland sem nema hugsanlega mengun í hafi. Starfsmenn
Landhelgisgæslunnar gera athugun á því hvort um raunverulega mengun eða önnur
náttúrleg fyrirbæri er að ræða, svo sem nýfrosinn sjó eða þörungablóma. Þess má
geta að gervitunglamyndin sem barst í gær var tekin í um 700 kílómetra hæð og
mengunarflekkurinn sem gervitunglið nam stemmdi við siglingaleið umrædds skips.
Málið er nú í höndum Umhverfisstofnunar og Samgöngustofu.
Viðbúnaður vegna gruns um mengun
Gervitunglamyndin sem Landhelgisgæslan fékk frá EMSA.
Flekkurinn sem áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar sá.