Torkennilegur kassi við Elliðavatn reyndist meinlaus.
12.10.2019 Kl: 20:47
Sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út að beiðni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna torkennilegs kassa sem fannst við Elliðavatn í dag. Landeigandi við vatnið brást hárrétt við og tilkynnti málið til lögreglu. Í fyrstu var talið að dínamít væri í kassanum enda gáfu merkingar hans til kynna að í honum væri sprengiefni.
Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar og sérsveitar ríkislögreglustjóra héldu á staðinn sem og almennir lögreglumenn. Kassinn fannst við framkvæmdir í gamalli geymslu og var viðbúnaður mikill. Talið var að töluvert magn sprengiefnis væri í kassanum. Við nánari athugun kom í ljós að engin hætta var á ferðum enda einungis steinar í kassanum en ekki sprengiefni.
Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar og lögreglu árétta að aldrei má skilja við umbúðir, kassa eða aðra hluti sem merktir eru sem sprengiefni á víðavangi. Finnist slíkt skal gera lögreglu viðvart eins og réttilega var gert í þessu tilfelli.
Kassinn var merktur á þann hátt að ekki var annað að skilja en að hann hefði sprengiefni að geyma. Viðbrögð landeigandans voru því hárrétt.