Við erum til taks

Með öflugri öryggis- og löggæslu, eftirliti, leit og björgun ber Landhelgisgæslunni að stuðla að öryggi sjófarenda, fólksins í landinu og verndun auðlinda með sem bestum og hagkvæmustum hætti.

Kynningarbæklingur


Ábendingar

Móttaka á þyrlu

Mikilvægar upplýsingar um móttöku þyrlu á sjó og landi

Samskipti við skip og loftför

Mikilvægar upplýsingar um kallrásir, merkjaflögg, ljós- eða hljóðmerki

Sjávarföll

Upplýsingar um tíma og hæð flóðs og fjöru í Reykjavík næstu sjö daga


Fréttayfirlit

Njóta minna öryggis ef ekki er réttur búnaður um borð

12.1.2009

Mánudagur 12. janúar 2009

Uppsetning nýs fjarskiptakerfis til talviðskipta við skip og báta umhverfis Ísland er nú á lokastigi. Endurnýjunin felur í sér talsverðar breytingar fyrir fjarskipti skipa . Þess vegna hvetur Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/Vaktstöð siglinga, sjófarendur til að huga að öryggi sínu, endurnýja eða  uppfæra gömul tæki auk þess að skipta út neyðarsendum ef á þarf að halda.  Áríðandi er að allar VHF stöðvar íslenskra skipa verði með DSC möguleikum og tengdar við GPS tækjum. Líklegt er þó að hluti bátaflotans sé ekki með VHF DSC búnað.  Ísland er næstsíðasta þjóðin við Norður Atlantshaf sem tekur upp DSC þjónustu á VHF, þ.e. tekur upp svokallað A1 svæði.

Við þetta tækifæri var íslenska NAVTEX kerfið einnig endurnýjað. Settir voru upp fjórir  nýir NAVTEX sendar, við  Grindavík og á Sauðanesi nærri Siglufirði. Þessi sendar koma í stað eins sendis sem var á Rjúpnahæð við Reykjavík. NAVTEX kerfið er notað til að senda siglingaviðvaranir til skipa, t.d. stormspár,  upplýsingar um hafís og aðrar siglingahættur auk skyndilokana og reglugerða. Frá apríl 2008 hafa NAVTEX tilkynningar verið sendar út á tveimur rásum, annarsvegar á alþjóðlegri rás 518 khz á ensku, og hinsvegar á landsrás, 490 KHz sem eingöngu er ætluð fyrir íslenskt mál.

Fyrir þann tíma voru allar NAVTEX upplýsingar sendar út á alþjóðlegu rásinni, sem er 518 khz. Þar á allt efni að vera á enskri tungu, en loftskeytastöðvarnar sendu staðbundnu upplýsingar á íslensku á þeirri rás, sem eins og áður sagði er ekki leyfilegt. Vandinn er að mörg íslensku skipanna eru aðeins með einnar rásar NAVTEX tæki, þótt það sé  í samræmi við gildandi reglugerðir um búnað. Til að nýta þá öryggisþjónustu sem boðið er upp á, þurfa skip og bátar nú að vera búin tveggja rása NAVTEX tæki, bæði fyrir 518 kHz og 490 kHz.

Hið nýja fjarskiptakerfi getur unnið á DSC (Digital select calling) en sá búnaður tekur á móti neyðarköllum (og venjulegum köllum) skipa á VHF auk milli- og stuttbylgju. Ef sent er neyðarkall með DSC búnaði verða nærstödd skip og bátar einnig strax vör við neyðarkallið. Brýnt er að skip stilli DSC búnað sinn þannig að vaktstöðin geti staðsett skipin tafarlaust með „Poll“ í neyðartilfellum.

Til fróðleiks má geta að til eru a.m.k. fjórir flokkar búnaðar á DSC VHF þ.e. class A og B, sem eru aðallega ætluð farskipum og stærri fiskiskipum og síðan  D flokkur ásamt enn ódýrari gerðum DSC tækja. A-B-og D tækin eru með tvöfalda móttöku, þ.e. að þótt unnið sé á vinnurás hlustar tækið áfram á rás 70 DSC og móttekur þar uppköll og neyðarboð.

Við þessa endurnýjun kerfisins voru settar upp fimmtíu og tvær nýjar VHF fjarskiptastöðvar á tuttugu og sex stöðum víðsvegar um landið.  Einnig átta MF/HF, (millibylgju og stuttbylgju) sendar á sex móttökustöðvum með tuttugu og átta MF/HF móttökurum hringinn í kring um landið. Einnig var endurnýjaður miðlægur stjórnbúnaður stöðvarinnar fyrir fjarskiptakerfið.

Þar með er búið að endurnýja allan fjarskiptabúnað gömlu strandastöðvanna sem þjónað hafði dyggilega um áratugaskeið. Til gamans má geta þess að endurnýjun búnaðarins hófst á 90 ára afmæli loftskeytaþjónustunnar á Íslandi, en stofndagur hennar var 17. Júní 1918.

12.01.2009/HBS