Þyrlan flaug með vísindamenn yfir eldstöðvar

Aðstæður kannaðar við Bárðarbungu, Öræfajökul og víðar

Almannavarnir fylgjast þessa dagana grannt með þróun mála við nokkrar af helstu eldstöðvum landsins en eins og fram hefur komið í fréttum eru vísbendingar um aukna virkni á þessum slóðum. Á laugardag gafst færi á að kanna með beinum hætti aðstæður við eldstöðvarnar. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, flutti þá vísindamenn frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Veðurstofu Íslands á vettvang.

Fyrsti viðkomustaður vísindamannanna var Bárðarbunga í norðvestanverðum Vatnajökli. Flogið var eftir öskjubrúninni og kannað hvort einhverjar breytingar væru sjáanlegar á þekktum sigkötlum. Tveir þeirra voru opnir og mátti sjá mikla gufu stíga upp af öðrum þeirra.

Bardarbunga

Gufubólstrar stíga upp af Bárðarbungu. Mynd: LHG

Frá Bárðarbungu var flogið niður Dyngjujökul og með sporði hans alla leið inn að Kverkfjöllum, að útfalli Jökulsár að fjöllum. Þar var lent svo vísindamenn gætu farið að ánni og tekið nauðsynleg sýni.

Að loknum mælingum á þessu svæði var flogið þvert yfir Vatnajökul suður að Öræfajökli. Í öskju þessa hæsta fjalls landsins mátti sjá að þar hafði myndast dæld í íshellunni. Að því búnu var flogið með Kvíárjökli til að leita ummerkja um aukið rennsli úr jöklinum. Lent var við Kvíá svo vísindamennirnir gætu tekið sýni. Á meðan þeir athöfnuðu sig flaug áhöfnin þyrlunnar til Hafnar í Hornafirði til að taka eldsneyti. Á flugvellinum var flugvél Isavia en hún hafði einmitt líka verið notuð til mælinga á Öræfajökli og Bárðarbungu um daginn.

IMG_3611

Þyrlan fór með vísindamenn til að kanna aðstæður við þekktar eldstöðvar. Mynd: Björn Oddsson. 

Vísindamennirnir voru svo sóttir við Kvíá og fluttir þaðan að útfalli Múlakvíslar í sunnanverðum Mýrdalsjökli. Þar fóru vísindamennirnir út til rannsókna en á meðan sveimaði þyrlan um svæðið. TF-LIF lenti svo á Reykjavíkurflugvelli um hálfsexleytið eftir vel heppnaðan rannsóknaleiðangur.