Gleðilegt nýtt ár! Annáll Landhelgisgæslunnar 2016
Margvíslegar annir settu svip sinn á störfin 2016, ekki síst hjá flugdeildinni.
Landhelgisgæsla Íslands fagnaði níutíu ára afmæli á árinu 2016 en 1. júlí 1926 er stofndagur hennar. Í tilefni afmælisins ákvað Landhelgisgæslan að efna til samfélagsverkefnis í þeim tilgangi að láta gott af sér leiða og þakka fyrir stuðninginn. Langveikum börnum og fólki sem nýtt hefur sér geðsvið Landspítalans var meðal annars boðið í þyrluflug.
Óhætt er að segja að miklar annir hjá flugdeild LHG sé eitt af því sem einkennt hefur störf stofnunarinnar á þessu ári. Bráðabirgðatölur frá flugdeildinni sýna að á árinu 2016 voru útköllin alls 251 samanborið við 218. Útköllunum hefur því fjölgað um 15 prósent á milli ára. Vaxandi ferðamannafjöldi sést meðal annars á því að leitar- og björgunarútköllum í óbyggðum fjölgaði um tæpan þriðjung frá 2015 og sjúkraflutningum í óbyggðum um rúm 40 prósent á milli ára.
Ólíkt því sem verið hefur undanfarin ár var lítið um erlend verkefni hjá Landhelgisgæslunni í ár. Af bókhaldslegum ástæðum sinnti varðskipið Týr engum verkefnum fyrir Frontex, landamærastofnun Evrópusambandsins, í Miðjarðarhafi. Flugvélin TF-SIF tók að að sér verkefni þar snemma á árinu en þau stóðu ekki lengi yfir. Tekjurnar sem Landhelgisgæslan hefur haft af þessum erlendum verkefnum hafa skipt verulegu máli fyrir stofnunina og því munaði verulega um þær í rekstrinum á árinu.
Á síðasta degi ársins 2016 Landhelgisgæslan björtum augum fram á veginn og hlakkar til að takast á við þær áskoranir sem árið 2017 á eftir að bera í skauti sér. Landhelgisgæsla Íslands óskar landsmönnum öllum farsældar á nýju ári og þakkar auðsýnda velvild og stuðning í áranna rás.
Hér að neðan er stiklað á stóru í starfseminni á árinu 2016 eins og hún blasti við í fréttum á vefsíðunni okkar. Listinn er alls ekki tæmandi heldur einungis hugsaður til að gefa svipmynd af verkefnum ársins.
Janúar
Varðskipið Þór stóð í ströngu um miðjan janúar þegar það dró flutningaskipið Hoffell til Reykjavíkur. Skipið varð aflvana um 160 sjómílur suðvestur af Færeyjum. Ferð Þórs frá því að beiðnin barst og þar til komið var að hafnarmörkum Reykjavíkurhafnar var alls 940 sjómílur og tók 111 klukkustundir. Þetta er lengsta ferð Þórs með skip í drætti. Raunar var þetta ekki eini drátturinn hjá Þór í þessari ferð því fyrr í mánuðinum dró varðskipið togskipið Fróða II ÁR-32. Þór er fyrir löngu búið að sýna fram á mikilvægi þess að Íslendingar eigi öflugt varðskip með mikla dráttargetu en fiskiskip, flutningaskip og farþegaskip sem reglulega eru í siglingum við og umhverfis Ísland hafa stækkað undanfarna áratugi.
Í janúar stóð Landhelgisgæslan fyrir vel heppnaðri samæfingu loftfara, varðskips og stjórnstöðvar. Líkt var eftir því að 15 tonna bátur sem lagði af stað frá höfn á Snæfellsnesi kæmi ekki fram á tilsettum tíma til hafnar í innanverðum Faxaflóa. Í æfingunni tóku þátt tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar, flugvélin TF-SIF, varðskipið Þór og stjórnstöðin. Þessar æfingar eru nauðsynlegur þáttur í starfi stofnunarinnar.
Febrúar
Í febrúarmánuði var flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, við landamæraeftirlit á Miðjarðarhafi fyrir Frontex, landamærastofnun Evrópusambandsins. Allt frá árinu 2010 er Landhelgisgæslan hóf þátttöku í landamæraeftirlitinu hafa áhafnir varðskipa og flugvélar Landhelgisgæslunnar komið með einum eða öðrum hætti að björgun ríflega 14.000 einstaklinga. Þessi störf eru því afar öflugt framlag Íslands til leitar- og björgunarstarfa á syðri mörkum Schengen-svæðisins sem hafa verið undir miklu álagi undanfarin ár. Annars dró mjög úr erlendum verkefnum stofnunarinnar á árinu. Það hafði sín áhrif á fjárhagsstöðu hennar enda hafa sértekjur vegna erlendra skipt verulegu máli fyrir reksturinn undanfarin ár.
Loðnuvertíðin setti talsverðan svip á störf Landhelgisgæslunnar í febrúar. Þar mæddi ekki síst á stjórnstöðinni sem fylgdist með tugum erlendra skipa á miðunum. Stundum voru fleiri erlend skip í lögsögunni en höfðu heimild til veiða, þau sem síðast voru í röðinni urðu að bíða eftir að röðin kæmi að þeim og stýrði stjórnstöðin því að allt gengi vel fyrir sig. Þá var varðskipið Þór við eftirlit undan norðaustanverðu landinu vegna loðnuveiða erlendra fiskiskipa. Farið var um borð í skip á leið til löndunarstöðva erlendis til að kanna aflann og aflaskrár. Í einni slíkri eftirlitsferð sótti varðskipið hjartveikan mann um borð í norskt loðnuskip og flutti hann til Neskaupsstaðar.
Góður gestur kom til landsins um miðjan mánuðinn, Agusta Westland CH-149 Cormorant björgunarþyrla kanadíska flughersins. Þyrlan var hér við æfingar í nokkra daga, meðal annars á Austurlandi með varðskipinu Þór og björgunarsveitum og á Langjökli með þyrlu Landhelgisgæslunnar. Tilgangur heimsóknarinnar var að efla samskipti þyrlusveita landanna og efla getu til að sinna leit og björgun á mótum björgunarsvæðanna.
Mars
Varðskipið Þór sinnti ýmsum verkefnum í marsmánuði. Meðal annars tók það Kristínu GK-457 í tog til Reykjavíkur en skipið varð vélarvana 44 sjómílur vestur af Látrabjargi. Þremur dögum síðar tók Þór þátt í velheppnaðri æfingu með TF-LÍF vestan við Garðskaga. Skipverjar á Þór stóðu sig afbragðsvel þegar áhöfnin á þyrlunni setti óvænt upp æfingu þar sem líkt var eftir vélarbilun um borð í þyrlunni og að hún væri að fara í sjóinn. Stukku þá varðskipsmenn strax til og sjósettu björgunarbát og sigldu að þyrlunni á aðeins einni mínútu.
Í byrjun mars var þeim tímamótum fagnað að þrjátíu ár voru liðin frá því að læknar urðu hluti af áhöfn björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar. Núverandi og fyrrverandi læknar úr áhöfnum björgunarþyrlanna auk þeirra starfsmanna Landhelgisgæslunnar sem voru við störf á þyrlunum er læknar hófu þar störf komu saman ásamt fleiri starfsmönnum stofnunarinnar við þyrlupallinn við Landspítalann í Fossvogi.
Og talandi um tímamót þá fór Reynir Garðar Brynjarsson í sitt síðasta flug um miðjan mánuðinn sem spilmaður og sjúkraflutningamaður í áhöfn þyrla Landhelgisgæslunnar eftir fimmtán ára starf. Hann á að baki 4.235 hífingar og enn fleiri flug. Reynir Garðar er nú viðhaldsskipulagsstjóri í flugtæknideild.
Apríl
Fyrstu farfuglarnir okkar komu í aprílbyrjun. Þá sinnti flugsveit bandaríska flughersins loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins við Ísland. Alls tóku 150 liðsmenn þátt í verkefninu, auk starfsmanna frá stjórnstöð NATO í Uedem, Þýskalandi. Fjórar F-15C orrustuþotur og KC-135 eldsneytisbirgðaflugvél voru notaðar við eftirlitið, sem stóð yfir í um þrjár vikur.
Annað alþjóðaverkefni sem Landhelgisgæslan á aðild að kom líka við sögu í aprílbyrjun. 6. apríl endurnýjuðu Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, og Kim Jörgensen undirhershöfðingi og yfirmaður Joint Arctic Command samstarfssamning um leit og björgun, sameiginlegt eftirlit og öryggismál á hafsvæðinu milli Færeyja, Íslands og Grænlands. Þetta samstarf á sér langa sögu og er einn af hornsteinum öryggismála á norðurslóðum.
Sama dag tóku varðskipið Þór og sjómælingabáturinn Baldur þátt í umfangsmikilli mengunarvarnaræfingu norðvestur af Keilisnesi. Auk Landhelgisgæslunnar tóku aðilar frá Umhverfisstofnun, Olíudreifingu og Samgöngustofu þátt í æfingunni. Við æfinguna var meðal annars notast við 300 metra mengunarvarnargirðingu varðskipsins Þórs, sem Baldur sá um að draga út.
Seinni hluta mánaðarins sinnti þyrlan TF-LÍF skemmtilegu verkefni þegar hún gegndi lykilhlutverki við að koma ljóshúsi fyrir á gamla Garðskagavitann. Verkið var unnið í samvinnu við björgunarsveitir. Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, átti leið hjá og tók áhöfnin myndir af því þegar ljóshúsinu var tyllt ofan á vitann.
Maí
Strandveiðitímabilið sem hófst í maí setti svip á störf Landhelgisgæslunnar framan af sumri. Þá var jafnan ys og þys í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar sem fylgdist með bátunum, en stundum voru þegar mest lét hátt í þúsund á sjó. 11. maí kom meðal annars til hennar kasta þegar eldur kom upp í strandveiðibát rétt fyrir utan Siglufjörð.
Stjórnstöð barst tilkynning um eldinn og kallaði hún strax út björgunarskipið Sigurvin sem hélt þegar á staðinn og dró bátinn til hafnar. Sem betur fer amaði ekkert að skipverjanum. Landhelgisgæslan kom einnig að málum þegar strandveiðibát hvolfdi um 25 sjómílur út af Aðalvík með þeim afleiðingum að einn fórst. Skipverjinn fannst eftir umfangsmikla leit og einnig tókst að bjarga flakinu í land til rannsóknar, þrátt fyrir slæmt veður á svæðinu. Aðgerðum var stýrt úr stjórnstöð Landhelgisgæslunnar.
Hafísinn, þessi landsins forni fjandi, gerði vart við sig í maímánuði þegar hann kom inn fyrir lögsögumörk Íslands út af Vestfjörðum. Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, fór í regluleg ískönnunarflug um svæðið. Seinni hluta maí var ísinn næst landi um 35 sjómílur NNV af Straumnesi. Talsverður ís var á svæðinu miðað við undanfarin ár á þessum árstíma.
Um miðjan mánuðinn var því fagnað með grillveislu á bryggju Landhelgisgæslunnar við Reykjavíkurhöfn að aldarfjórðungur var liðinn síðan sjómælingabáturinn Baldur var tekinn í notkun. Þessi smái en knái vinnuþjarkur hefur reynst Landhelgisgæslunni afar vel til sjómælinga, eftirlits, löggæslu og annarra verkefna.
21. maí fór fram ein stærsta flugslysaæfing sem haldin hefur verið hérlendis og tók Landhelgisgæslan að sjálfsögðu þátt í henni. Á æfingunni var líkt eftir því að þota með 150 farþega tilkynnti um hita í hreyfli og brotlenti að lokum utan brautar. Hlutverk þyrlu og flugvélar Landhelgisgæslunnar í æfingunni var að flytja slasaða á sjúkrahús.
Þá önnuðust starfsmenn Landhelgisgæslunnar öryggisgæslu og umsýslu á söfnunarsvæði slasaðra sem er í flugskýli stofnunarinnar á Keflavíkurflugvelli. Alls tóku yfir 500 þátttakendur úr ýmsum áttum þátt í æfingunni, svo sem lögregla, slökkvilið, björgunarsveitir og fleiri. Æfingin var skipulögð af Isavia og almannavörnum.
Undir lok mánaðarins kom svo hingað til lands flugsveit norska flughersins til að sinna loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins hér við land. Alls tóku sjötíu liðsmenn þátt í verkefninu og til viðbótar starfsmenn frá stjórnstöð NATO í Uedem, Þýskalandi. Fjórar F-16 orrustuþotur komu með flugsveitinni til landsins.
Júní
Um miðjan júní vann Landhelgisgæslan að því, ásamt Árna Kópssyni kafara og rannsóknarnefnd samgönguslysa, að ná fiskiskipinu Jóni Hákoni BA á flot. Jón Hákon sökk undan Straumnesi í júlí 2015 með þeim afleiðingum að einn skipverji fórst. Flókin undirbúningsvinna lá að baki aðgerðinni, sem var unnin í samstarfi aðgerðasviðs, sjómælingasviðs, köfunarsveitar, áhafnar varðskipsins Þórs og Árna Kópssonar og hans fólks.
Í aðgerðinni sjálfri voru það svo Þór og áhöfn, köfunarsveit, sjómælingabáturinn Baldur og áhöfn og Árni Kópsson og hans mannskapur. Aðgerðin þótti marka ákveðin tímamót og þrátt fyrir ýmis ljón í veginum tókst að lokum að koma Jóni Hákoni á þurrt á Ísafirði tiltölulega óskemmdum þar sem Rannsóknarnefnd Samgönguslysa fékk skipið afhent til rannsóknar.
Fyrr í mánuðinum kom varðskipið Þór aftur til Reykjavíkur eftir að hafa fengið sannkallaða sumaryfirhalningu í reglubundnu viðhaldi í slipp í Póllandi. Sólin skartaði sínu fegursta er Þór kom til hafnar, nýmálaður og glansandi.
Júlí
1. júlí fagnaði Landhelgisgæsla Íslands 90 ára afmæli sínu en hún var formlega stofnuð á þessum degi árið 1926. Skömmu áður kom til landsins fyrsta varðskipið sem smíðað var fyrir Íslendinga. Það var gufuskipið Óðinn, 512 brúttólesta skip, vopnað tveimur 57 mm fallbyssum. Í tilefni afmælisins ákvað Landhelgisgæslan að efna til samfélagsverkefnis í þeim tilgangi að láta gott af sér leiða með einhverjum hætti og um leið þakka íslensku þjóðinni traustið í gegnum árin. Landhelgisgæslan leitaði samstarfs við Landspítala og á haustdögum var fólki sem hefur nýtt sér geðsvið Landspítala boðið í siglingu með varðskipinu Þór og nokkur langveikum börn fóru ásamt fjölskyldum sínum í þyrluflug í desember.
Það er kunnara en frá þurfi að segja að fjöldi erlendra ferðamanna náði nýjum hæðum á þessu ári. Júlí er einn annasamasti ferðamannamánuðurinn og þess sá greinilega stað í verkefnum Landhelgisgæslunnar í mánuðinum. Þyrlur Landhelgisgæslunnar fóru þá í fjölmörg útköll sem tengdust ferðamönnum, bæði erlendum og innlendum. Sem dæmi má nefna að í upphafi mánaðarins sótti TF-LÍF konu sem slasaðist þegar hún féll við Reynisfjall, nærri Vík.
Tveimur dögum síðar flutti hún konu sem hrasaði í Bolungarvík á Ströndum. Daginn eftir fór svo TF-GNÁ á Torfajökulssvæðið þar sem göngumaður hafði fótbrotnað. Um miðjan mánuðinn var svo TF-LÍF kölluð til vegna fransks ferðamanns sem lét lífið þegar hann féll í á í Sveinsgili að Fjallabaki. Félagi hans hafði gert viðvart og tókst þyrlunni að finna hann og þar með staðsetja slysstaðinn. Aðstæður voru nokkuð erfiðar á vettvangi, svæðið afskekkt og snjóþyngsli þar töluverð. Landhelgisgæslan aðstoðaði við leitina að manninum og tóku kafarar þátt í aðgerðum á vettvangi.
Um miðbik júlí gekk hvítabjörn á land nærri bænum Hvalnesi á Skaga og var hann felldur skömmu síðar. Að beiðni lögreglu flaug TF-LÍF um svæðið til að svipast um eftir fleiri bjarndýrum. Engin ummerki um slíkar skepnur sáust og var leit því hætt sama dag.
Undir lok mánaðarins kom varðskipið Týr ástralskri skútu til aðstoðar en leki kom að henni um 180 sjómílur vestur af Garðskaga. Varðskipsmenn fluttu tæpa 220 lítra af eldsneyti yfir til skútunnar og einnig könnuðu þeir skemmdir á henni. Ekki var talin þörf á að fylgja henni til hafnar þar sem hún gat siglt fyrir eigin vélarafli og var í samfloti með annarri skútu.
Ágúst
Einn fræknasti flugkappi okkar Íslendinga, Benóný Ásgrímsson, fagnaði hálfrar aldar starfsafmæli sínu hjá Landhelgisgæslunni í ágúst. Benóný á að baki hreint stórkostlegan feril sem þyrluflugstjóri og er að öðrum ólöstuðum reynslumesti flugstjóri landsins í leitar- og björgunarflugi og þótt víðar væri leitað. Í októberbyrjun var svo blásið til viðhafnarsamkomu Benedikt til heiðurs þegar hann flaug sitt síðasta flug hjá Landhelgisgæslunni. Starfsmenn stóðu heiðursvörð og slökkvilið Reykjavíkurflugvallar myndaði heiðursboga yfir þyrluna er hún renndi í hlað.
Þá fylgdu þyrla og flugvél Landhelgisgæslunnar Benóný er hann flaug til baka úr sínu síðasta verkefni. Er Benóný steig út úr þyrlunni sást greinilega hversu hissa en hrærður hann var yfir móttökunum og það var ekki laust við að tár sæjumst á hvarmi samstarfsfélaga er kappinn gekk fram fyrir þyrluna og smellti kossi á nef hennar í kveðjuskyni.
Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar hefur jafnan í mörg horn að líta og ágústmánuður var þar engin undantekning. Í byrjun mánaðarins fannst torkennilegur hlutur við enda flugbrautarinnar í Borgarnesi og var sprengjusveitin kölluð út. Í ljós kom að þarna var á ferð bresk sprengjukúla frá síðari heimsstyrjöld. Liðsmenn sveitarinnar gerðu kúluna óvirka.
Undir lok mánaðarins fann vegfarandi tvo hluti skammt frá Bláfjallaafleggjaranum á Sandskeiði. Sprengjusveitin fór á vettvang og bar kennsl á hlutina: eldflaug (bazooka) og sprengikúlu úr síðari heimsstyrjöld. Eftir mat sprengjusérfræðinga á aðstæðum var ákveðið að loka þjóðvegi númer 1. Eyddu sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar sprengjunum og eftir það opnaði lögreglan aftur fyrir umferð.
Um verslunarmannahelgina var þyrla Landhelgisgæslunnar í umferðareftirliti, meðal annars með lögreglunni á Suðurlandi. Flogið var með þjóðveginum austur að Bakka og til baka aftur og upp Árnessýslu og lent til að hraðamæla og kanna réttindi og ástand ökumanna.
Viku síðar var svo varðskipið Þór á Dalvík þar sem árlegur fiskidagur var haldinn. Bæjarbúar og gestir þeirra gátu heimsótt skipið og þekktust yfir fjögur þúsund manns boðið, þar á meðal forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson sem mætti alveg óvænt ásamt eiginkonu sinni Elizu Reid til að skoða þetta glæsilega og öfluga varðskip okkar Íslendinga.
September
Árleg æfing sprengjusérfræðinga, Northern Challenge var haldin á Suðurnesjum í september. Um er að ræða alþjóðlega NATO-æfingu sem Landhelgisgæslan stýrir og fer hún fram á starfssvæði Landhelgisgæslunnar á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, á gamla varnarliðsvæðinu og á hafnarsvæðum þar í kring.
Æfingin er í umsjón séraðgerða- og sprengjueyðingarsviðs Landhelgisgæslunnar sem einnig annast skipulagningu hennar. Fjölmargir starfsmenn LHG komu að æfingunni auk þess sem varðskip, þyrla, sjómælingabátur og stjórnstöðvar stofnunarinnar tóku þátt í henni. Tilgangur Northern Challenge er að æfa viðbrögð við hryðjuverkatilfellum þar sem heimatilbúnum sprengjum hefur verið komið fyrir. Fjöldi erlendra gesta fylgdist með æfingunni, sem er ein sú stærsta sinnar tegundar í heiminum.
29. september hófst loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland á ný með komu flugsveitar tékkneska flughersins. Alls tóku um 70 liðsmenn þátt í verkefninu og til viðbótar starfsmenn frá stjórnstöð NATO í Uedem, Þýskalandi. Flugsveitin kom til landsins með fimm JAS-39C Gripen orrustuþotur. Tékkneska sveitin var hér á landi allan næsta mánuðinn.
Og í september fór varðskipið Þór í sérdeilis skemmtilega heimsókn til Mjóafjarðar í eftirlits- og löggæsluferð sinni um landið. Var Mjófirðingum boðið að skoða skipið og tók skipherrann, Sigurður Steinar Ketilsson ásamt áhöfn sinni vel á móti glaðbeittum gestunum. Voru þeir ferjaðir um borð á léttbátum varðskipsins þar sem bryggjan á Mjóafirði er heldur lítil fyrir skip eins og varðskipið Þór.
Október
Landhelgisgæslan, Neyðarlínan og björgunarsveitarmenn á Ísafirði unnu að því í október að koma fyrir nýjum móttakara fyrir AIS á Straumnesfjalli. Hann þjónar stóru svæði á Vestfjörðum og Ströndum og með tilkomu hans eykst öryggi skipa á svæðinu. Koma þurfti nýju húsi upp á fjallið ásamt ljósavél, stögum og öðrum búnaði. Búnaðurinn var settur um borð í varðskipið Tý á Ísafirði sem fór svo inn á Hesteyrarfjörð þar sem þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF flutti búnaðinn í land.
Í lok október barst Landhelgisgæslunni merki frá neyðarsendi seglskútu sem saknað hafði verið frá því í sumar, en hún var þá á siglingu milli Portúgal og Azoreyja. Staðsetning neyðarsendisins var skammt austur af Grindavík og var þyrla Landhelgisgæslunnar send á vettvang. Sendirinn fannst nærri Hópsnesi. Í fjöru á svipuðum slóðum fannst svo brak úr skútunni og líkamsleifar sem líklega eru af skipverjanum.
Landhelgisgæslan tók þátt í tveimur bráðskemmtilegum verkefnum í október. Annars vegar flaug áhöfn þyrlunnar TF-SYN með bangsann Blæ og aðstoðarbangsa hans á Vífilsstaðatún í Garðabæ og afhenti þar bangsana börnum á leikskólum í Garðabæ. Verkefnið var hluti af forvarnarverkefni Barnaheilla gegn einelti.
Hins vegar skaust þyrlusveitin með Ævar vísindamann og föruneyti hans í Surtsey um leið og hún aðstoðaði björgunarsveitina Víkverja við að koma rafgeymum fyrir fjarskiptaendurvarpa upp á Hjörleifshöfða. Á bakaleiðinni voru Ævar og félagar sóttir í eyna og lauk þar með þessari svaðilför í Surtsey.
Nóvember
Tíðín var rysjótt lengst af haustinu og gerði meðal annars rjúpnaskyttum lífið leitt. Landhelgisgæslan tók í nóvember tvívegis þátt í leitar- og björgunaraðgerðum vegna rjúpnaveiðimanna sem lent höfðu í ógöngum. Fyrstu helgina í mánuðinum var leitað að tveimur skyttum á Snæfellsnesi. Áhöfn TF-SYN, þyrlu Landhelgisgæslunnar fór á vettvang með svokallaðan GSM-miðunarbúnað. Þá aðstoðaði varðskipið Týr við fjarskiptasamband. Um miðjan mánuðinn tók svo þyrlan TF-LÍF þátt í leit að rjúpnaskyttu austur á Fljótsdalshéraði. Aðstæður voru erfiðar, mikil ofankoma og lítið skyggni. Veiðimaðurinn fannst að lokum eftir talsverða hrakninga en heill á húfi. Hann var fluttur suður til Reykjavíkur með þyrlunni.
Í nóvember æfði áhöfn TF-LÍF björgun úr öldubrimi við Stóru-Sandvík. Magnaðar myndir náðust af því þegar sigmaðurinn Viggó M. Sigurðsson bókstaflega hvarf ofan í öldurótið. Allt fór vel enda miklir fagmenn á ferð en þessar myndir sýna að þetta er vægast sagt ekki starf fyrir hvern sem er.
Desember
Landhelgisgæslunni berast á hverju ári góðar gjafir frá velunnurum. Það var falleg stund í flugskýli Landhelgisgæslunnar í desemberbyrjun er fjölskylda Jennýjar Lilju Gunnarsdóttur afhenti ómtæki að gjöf úr minningarsjóði um þessa stúlku sem lést af slysförum í október 2015, aðeins þriggja ára gömul. Með þessari veglegu gjöf vildi fjölskyldan þakka þyrlusveit Landhelgisgæslunnar fyrir aðkomu sína á vettvangi slyssins og alla veitta aðstoð. Tækið mun gera þyrluáhöfnum Landhelgisgæslunnar kleift að greina mun betur en áður ástand sjúklinga, ekki síst barna sem oft geta ekki tjáð sig með sama hætti og fullorðnir um hvað amar að.
Fyrr á árinu, í maí nánar tiltekið, gaf Styrktarsjóður Kiwanisumdæmisins Ísland/Færeyjar og Kiwanisklúbbarnir Elliði, Eldey, Esja, Hekla og Dyngja svokallað Lucas2 hjartahnoðtæki til notkunar í þyrlum Landhelgisgæslunnar. Fór afhendingin fram á þyrlupallinum við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi. Landhelgisgæslan er afar þakklát fyrir þessar rausnarlegu gjafir sem báðar hafa mikið að segja um umönnun og meðhöndlun sjúklinga um borð í þyrlunum.