Viðburðaríkir sólarhringar
Fjölmörg verkefni á borði Landhelgisgæslunnar.
18.5.2019 Kl: 15:22
Áhöfnin á TF-LIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar, skipverjar á varðskipinu Tý og áhöfn Sifjar, flugvélar Landhelgisgæslunnar, hafa haft í nógu að snúast undanfarna tvo sólarhringa. Áhafnir loftfaranna tóku eins og fram hefur komið þátt í flutningi slasaðra eftir rútuslys í Öræfum á fimmtudag. Þá um kvöldið var áhöfnin á TF-LIF aftur kölluð út og beðin um að sækja sjúkling til Vestmannaeyja en slæmt skyggni var í Eyjum þá um kvöldið. Í
gærkvöldi var þyrlan og varðskipið kölluð út vegna elds sem kom upp í rækjutogaranum Sóleyju Sigurjóns, 90 sjómílur norður af landinu, en tveir skipverjar voru hífðir um borð í þyrluna sem beið á Akureyri í nótt til öryggis. Þá héldu reykkafarar frá varðskipinu Tý yfir í rækjutogarann í morgun og könnuðu aðstæður.
Eftir hádegi í dag var þyrlan kölluð út frá Akureyri vegna slasaðs skíðamanns á Siglufirði en hann var fluttur á sjúkrahús á Akureyri. Meðfylgjandi eru myndir frá þessum viðburðaríku tveimur sólarhringum.
TF-LIF á Siglufirði í dag.
Slasaður skíðamaður fluttur um borð í þyrluna.
Tveir skipverjar á Sóleyju Sigurjóns voru hífðir um borð í þyrluna Líf eftir að eldur kom upp í vélarrúmi skipsins.
Varðskipsmenn fara um borð í Sóleyju í morgun.
Slæmt skyggni var í Vestmannaeyjum þegar sjúklingur var sóttur á fimmtudagskvöld.