Mikill viðbúnaður vegna elds um borð í togskipi

Einn skipverji fluttur frá borði vegna gruns um reykeitrun

  • IMG_9651-2-
3.10.2018 Kl 01:50

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst neyðarkall frá togskipinu Frosta ÞH229 klukkan 15:18 um að eldur væri laus í vélarrúmi skipsins. Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kölluðu þá þegar út tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar sem og varðskipið Tý, sem var statt í Ísafjarðardjúpi. Björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Gunnar Friðriksson, var einnig beðið um að halda rakleiðis á vettvang auk skipa í grenndinni. Togskipið var þá statt um 45 sjómílur vest-norðvestur af Straumnesi. Tólf eru í áhöfn Frosta og kom fram að allir væru heilir á húfi en hugsanlegt að einn skipverji væri með reykeitrun. Stundarfjórðungi eftir að neyðarkallið barst frá Frosta barst stjórnstöðinni tilkynning um að búið væri að einangra eldinn í vélarrúminu en reykur væri um allt skip, nema í brú þess. TF-GNA, þyrla Landhelgisgæslunnar, hélt beint á staðinn og kom að Frosta um klukkan 17:25 og hífði einn skipverja frá borði. Hann var fluttur til Ísafjarðar vegna gruns um reykeitrun en þaðan var honum flogið með sjúkraflugvél Mýflugs. Hin þyrlan, TF-SYN, flaug vestur með fimm slökkviliðsmenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Slökkviliðsmennirnir fóru um borð í Frosta um klukkan 18:00. Skömmu síðar kom varðskipið Týr á vettvang. Gott veður var á svæðinu. Togarinn Sirrý tók Frosta í tog fyrst um sinn en varðskipið Týr tók við drættinum laust eftir miðnætti. Frosti verður dreginn til Hafnarfjarðar. 

Received_548273268966769Sigmaður Landhelgisgæslunnar sótti skipverja í Frosta vegna gruns um reykeitrun. Mynd: Áhöfnin á TF-GNA

42974919_532688950488296_8959226815096815616_nVarðskipið Týr tók Frosta í tog og mun draga skipið til Hafnarfjarðar. Mynd : Guðmundur St. Valdimarsson.

IMG_9582-2-Mikill viðbúnaður var vegna málsins. TF-SYN flutti fimm slökkviliðsmenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins um borð í Frosta. 

42965182_438075963692251_1532894499619995648_nFrosti ÞH229. Mynd: Guðmundur St. Valdimarsson.

43056174_1779899545469056_1463956078336147456_n