Blés á Bolafjalli
Starfsmaður Landhelgisgæslunnar var fastur á Gunnólfsvíkurfjalli í 12 sólarhringa vegna veðurs í desember.
20.1.2020 Kl: 15:20
Landhelgisgæsla Íslands rekur fjórar ratsjár- og fjarskiptastöðvar Atlantshafsbandalagsins hér á landi. Þær eru mikilvægur hlekkur í loftvarnarkerfi NATO auk þess að gegna veigamiklu hlutverki fyrir flugleiðsögu og öryggisfjarskipti landsins. Tvær þeirra eru staðsettar á fjallstoppum Gunnólfsvíkurfjalls og Bolafjalls. Þrátt fyrir það sækir fólk þangað vinnu daglega og sú staða getur komið upp að fólk festist í vinnunni vegna veðurs, stundum svo dögum skiptir.
Þar sem hver lægðin hefur gengið yfir landið á undanförnum vikum hafa aðstæður í ratsjárstöðvunum tveimur verið afar krefjandi. Til dæmis var starfsmaður Landhelgisgæslunnar fastur á Gunnólfsvíkurfjalli í 12 sólarhringa þegar sögulega óveðrið í desember gekk yfir.
Aðfaranótt sunnudags stóðu starfsmenn Landhelgisgæslunnar vaktina á Bolafjalli en þá náðu vindhviðurnar 70 metrum á sekúndu. Okkar fólk er ekki óvant slíku. Það er því alveg óhætt að segja að starfsstöðvarnar á fjallstindunum séu nokkuð frábrugðnar því sem gengur og gerist á hefðbundnum vinnustöðum. Meðfylgjandi mynd sýnir veðurmælingarnar á Bolafjalli frá því um helgina.
Vindhraði á Bolafjalli náði 70 metrum á sekúndu um helgina.Vindhraði á Gunnólfsvíkurfjalli um miðjan desember.
Nokkuð snúið getur reynst að komast í ratsjárstöðina á Gunnólfsvíkurfjalli þegar veðrið er ekki með besta móti. Ratsjárstöðin á Gunnólfsvíkurfjalli.Ratsjárstöðin á Bolafjalli árið 2015.